Aðstæður fatlaðs fólks: Aðbúnaður, þjónusta, viðhorf, líðan, sjálfræði.
10 okt. 2011
Opin ráðstefna á vegum velferðarráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga
í samstarfi við Félagsvísindastofnun, Rannsóknarstofnun í fötlunarfræðum og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands
Aðstæður fatlaðs fólks: Aðbúnaður, þjónusta, viðhorf, líðan, sjálfræði.
Stöðuúttekt á þjónustu við fatlað fólk við tilfærslu á málaflokknum frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011. Kynning á niðurstöðum rannsóknar – lærdómur til framtíðar.
26. október kl. 13-16:45 í Hörpu, Norðurljósasal.
Aðgangur öllum opinn, en til hagræðis eru þátttakendur beðnir um að skrá sig.
Skráning: HÉR
Dagskrá: 13:00-13:10 Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra flytur ávarp.
13:10-14:00 Dr. Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar og Dr. Rannveig Traustadóttir, prófessor í fötlunarfræðum HÍ.
Niðurstöður rannsóknar um flutning þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. 14:00-14:15 Tryggvi Þórhallsson, lögfræði- og velferðarsvið Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Lærdómur sem sveitarfélögin geta dregið af niðurstöðum rannsóknarinnar. Umræður í 15 mín og síðan kaffi í 15 mín. 14:45-15:55 Viðbrögð sveitarfélaga og hagsmunaaðila:
Frá sveitarfélagi sem tók við málaflokknum um síðustu áramót.
Stella Víðisdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri menntasviðs Reykjavíkurborgar. Frá sveitarfélagi með þjónustusamning um málefni fatlaðra.
Soffía Lárusdóttir, framkvæmdastjóri búsetudeildar Akureyrarbæjar. Frá sjónarhóli notenda.
Hrefna K. Óskarsdóttir, verkefnastjóri Öryrkjabandalags Íslands .
Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar. Frá sjónarhóli starfsmanna.
Anna Lilja Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Þroskaþjálfafélags Íslands.
Þórarinn Eyfjörð, framkvæmdastjóri SFR. 15:55-16:15 Freyja Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar tekur saman niðurstöður ráðstefnunnar. 16:15-16:40 Umræður. 16:40-16:45 Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga flytur lokaorð.
Ráðstefnustjóri er Lára Björnsdóttir MA, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu.
Um síðustu áramót var ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk flutt frá ríki til sveitarfélaga. Þessi tilfærsla á verkefnum milli stjórnsýslustiga átti sér nokkurn aðdraganda en endanleg ákvörðun var tekin í mars 2009 með undirritun viljayfirlýsingar milli ríkis og sveitarfélaga um að hún skyldi eiga sér stað 2011.
Eitt af meginmarkmiðum tilfærslunnar er að bæta þjónustu við fatlað fólk og auka möguleika á að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum. Til að meta hvort þetta markmið náist gerði velferðarráðuneytið samkomulag við Félagsvísindastofnun, Rannsóknarstofnun í fötlunarfræðum og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ um að gera viðamikla úttekt á stöðu og þjónustu við fatlað fólk við flutning málaflokksins milli stjórnsýslustiga. Ráðgert er að gera sambærilega úttekt á árinu 2014 til að meta faglegan ávinning af tilfærslunni.
Rannsóknin beindist að þjónustunotendum og aðstandendum þeirra, auk starfsmanna í þjónustu við fatlað fólk. Á ráðstefnunni verða niðurstöður hennar kynntar og ræddar. Horft verður til framtíðar varðandi hugsanlegar breytingar á áherslum eða forgangsröðun með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknarinnar og lærdómi sem hægt er að draga af henni.
Á ráðstefnunni mun Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra flytja ávarp. Þá kynna Dr. Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar og Dr. Rannveig Traustadóttir prófessor í fötlunarfræðum niðurstöður rannsóknarinnar. Síðan fjallar Tryggvi Þórhallsson hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um lærdóm sem sveitarfélögin geta dregið af rannsókninni. Í kjölfarið koma viðbrögð frá Stellu Víðisdóttur og Ragnari Þorsteinssyni frá Reykjavíkurborg, en borgin var meðal sveitarfélaga sem tók við málefnum fatlaðs fólks um síðustu áramót. Soffía Lárusdóttir frá Akureyrarbæ ræðir sjónarmið sveitarfélags sem hafði áður tekið yfir þjónustu við fatlað fólk með þjónustusamningi. Í framhaldinu eru viðbrögð fulltrúa hagsmunasamtaka og fag- og stéttarfélaga starfsmanna, en það eru þau Hrefna K. Óskardóttir frá Öryrkjabandalagi Íslands, Friðrik Sigurðsson frá Þroskahjálp, Anna Lilja Magnúsdóttir frá Þroskaþjálfafélagi Íslands og Þórarinn Eyfjörð frá SFR. Að síðustu mun Freyja Haraldsdóttir framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar draga saman niðurstöður ráðstefnunnar og Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga flytja lokaorð. Ráðstefnustjóri er Lára Björnsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu.