Fréttir

Nýr kjarasamningur við ríkið undirritaður

3 júl. 2024

Í dag var undirritaður nýr kjarasamningur milli Sjúkraliðafélags Íslands og ríkisins, sem verður kynntur fyrir félagsmönnum sem starfa á heilbrigðisstofnunum ríkisins á morgun. Sjúkraliðar sem starfa á grundvelli þessa samnings fá sent teams fundarboð sem hefst kl. 15.00 á morgun, 4. júlí. Samningurinn, sem hefur verið lengi í undirbúningi, var loks samþykktur af samninganefndum. Helstu atriði samningsins eru:

  • Launahækkanir: Samningurinn tryggir launahækkanir sambærilegum þeim sem samið var um á almenna markaðinum, sem munu koma til framkvæmda á næstu fjórum árum. Hækkunin verður 23.750 kr. frá 1. apríl 2024, og svo aftur þann 1. apríl árin 2025, 2026, og 2027. Fyrsta hækkunin verður greidd 1. ágúst 2024 með afturvirkni frá 1. apríl 2024.
  • Persónu- og orlofsuppbót: Persónuuppbót greidd í desember, verður 106.000 kr. árið 2024, – 110.000 kr. árið 2025, – 114.000 kr. árið 2026, – 118.000 kr. árið 2027. Orlofsuppbót verður 58.000 kr. árið 2024, – 60.000 kr. árið 2025, 62.000 kr. árið 2026, – 64.000 kr. árið 2027.
  • Vinnitími: Vinnuvika starfsmanna í fullu starfi er 36 virkar vinnustundir.
  • Betri vinnutími: Nýr samningur felur í sér umbætur á „betri vinnutíma“ sem tryggir aukinn sveigjanleika, sem gerir sjúkraliðum kleift að samræma betur vinnu og einkalíf. Breytingar verða gerðar á reikningsreglum fyrir yfirvinnu og vaktaálag frá 1. nóvember 2024.
  • Mæðravernd og tæknifrjóvgun: Ný ákvæði komu inn um barnshafandi konur sem eiga rétt til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar sem halda launum þegar þær fara mæðravernd og hins vegar ákvæði um þá starfsmenn sem þurfa að vera fjarverandi vegna tæknifrjóvgunar halda rétti til greiðslu dagvinnulauna og eftir atvikum vaktaálags skv. reglubundinni vaktskrá.
  • Sérmál sjúkraliða: Nýjar áherslur sem snúa að því að styrkja stöðu sjúkraliða, og einkum sjúkraliða með diplómapróf sem meðal annars felst í því að ramma betur inn faglegar kröfur, starfssvið og ábyrgð.

Samningurinn verður kynntur fyrir félagsmönnum Sjúkraliðafélags Íslands þar sem Sandra B. Franks formaður, ásamt kjaramálanefnd félagsins, mun fara yfir helstu atriði samningsins og svaraði spurningum félagsmanna. Félagsmenn okkar hjá sem starfa hjá heilbrigðisstofnunum ríkisins eru hvattir til að mæta á teams-fundinn.

Kjaramálanefnd Sjúkraliðafélags Íslands, segir samninginn vera skref fram á við fyrir sjúkraliða enda hefur nefndi barist lengi fyrir þessum umbótum. Nefndin lýsti yfir góðum og uppbyggilegum viðræðum á samningstímanum þar sem viðsemjendur leituðust við að finna leiðir til lausna. Nefndin er því sátt með árangurinn og telur að ekki hafi verið hægt að komast lengra í þessari samningslotu. Það er von okkar að félagsmenn sjái hvað þessi samningur hefur að bjóða og kjósi honum í vil að kynningu lokinni, en þá geta félagsmenn greitt um hann atkvæði á „mínum síðum“ á heimasíðu félagsins. Atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn hefst fimmtudaginn 4. júlí kl. 16.00 og stendur til kl. 16.00 fimmtudags 11. júlí. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar verða kynntar að atkvæðagreiðslunni lokinni, og ef samningurinn verður samþykktur mun hann taka gildi frá og með 1. apríl 2024.

Sjúkraliðafélag Íslands mun áfram vinna að því að tryggja að nýi samningurinn verði framfylgt og að félagsmenn fái þann stuðning sem þeir þurfa.

Til baka