Fréttir

Ályktun 33. fulltrúaþings Sjúkraliðafélags Íslands

17 maí. 2024

Fulltrúaráðsþing Sjúkraliðfélags Íslands var haldið þann 16. maí og var þar eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóma.

Aðgerðir strax!

Fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands skorar á stjórnvöld að bregðast strax við kynbundnum launamun á íslenskum vinnumarkaði, sem hefur viðgengist hér í áratugi þrátt fyrir endalaus loforð um leiðréttingu á ómálefnalegum kynbundnum launamun.  

Kjarabarátta opinberra starfsmanna er einnig jafnréttisbarátta þar sem 70% opinberra starfsmanna eru konur.  Leiðrétting á kjörum sjúkraliða er fyrst og fremst jafnréttismál þar sem 97% þeirra eru konur. Hið opinbera gegnir lykilhlutverki í baráttunni gegn kynbundnum launamun, sem byggir að miklu leyti á verðmætamati starfa á kynskiptum vinnumarkaði.

Síðastliðið haust var haldinn fjölmennasti útifundur Íslandssögunnar þegar kvennaverkfallið stóð yfir. Stjórnvöld tóku þá undir kröfur fundarins um jafnrétti. Nú eru kjarasamningar opinberra starfsmanna lausir og gefst því einstakt tækifæri til að standa við fögur fyrirheit.

Launamunur kynjanna er ekki aðeins tölfræðilegt viðfangsefni heldur er hann félags- og efnahagslegur veruleiki. Launamisréttið hefur þannig neikvæð áhrif á lífsgæði og fjárhagslegt öryggi kvenna alla þeirra ævi.

Við erum búin að heyra nógu lengi orð og fagurgala um aðgerðarhópa, átakshópa og nefndavinnu í jafnréttismálum, núna krefjumst við aðgerða.

Til baka