Fréttir

4. föstudagspistill formanns

9 sep. 2022

Málefni bráðamóttöku í landinu hefur ekki farið framhjá neinum, allra síst sjúkraliðum. Vandinn er bæði víðtækur og flókinn. Um leið og heilbrigðisráðuneytið tilkynnti í vor að sett yrði á fót nýtt viðbragðsteymi um bráðaþjónustu í landinu ákváðum við hjá Sjúkraliðafélaginu að setja okkur strax í samband við formann teymisins og óska eftir þátttöku sjúkraliða í starfinu.

Það er því miður hvorki sjálfsagt né sjálfgefið að gert sé ráð fyrir aðkomu sjúkraliða í svona starfsemi og reynum við hjá félaginu að vakta nefndarstörf vel. Skemmst er frá því að segja að formaður þessa verkefnis tók vel í beiðni félagsins og munum við eiga fulltrúa í samstarfinu. Fyrsti fundur með aðkomu fagfélaga var haldinn í vikunni og tók ég þátt í honum. Bindum við miklar vonir um að hreyfing náist á þessi mál.

Í vikunni hittust einnig svokallaðar samningseiningar BSRB á fyrsta fundi sínum um komandi kjaraviðræður. Þar eigum við einnig okkar fulltrúa enda er mikilvægt að stilla saman strengi með félögum okkar. Á fundinum var greint frá launamun kynjana, þ.e. að laun kvenna eru lægri laun en karla, bæði hjá hinu opinbera og á almenna markaðnum. Þar var m.a. rætt um hið skakka verðmætamat, kynskipta vinnumarkaðinn, sem er eins og við þekkjum, sjúkraliðum í óhag.

Þessi vetur mun einkennast af kjarabaráttu og kjaraviðræðum, enda er kaupmáttur okkar allra að rýrna núna vegna verðbólgunnar. Við í Sjúkraliðafélaginu erum nú þegar farin að setja okkur í stellingar og mun kjaramálanefnd félagsins fara á undirbúningsnámskeið í samningatækni á Austurlandi síðar í mánuðinum.

Þá má geta þess að þann 14. september nk. verður haldið áhugavert málþing á vegum fagráðs Landspítalans, um alvarleg atvik í heilbrigðiskerfinu, og hefst það kl. 13:00 í Hringsal Landspítalans.

Brátt sér fyrir endan á framkvæmdum skrifstofunnar og hvet ég ykkur sjúkraliðar að kikja við og heilsa uppá okkur, deila hugmyndum og skoðunum, um hvaðeina sem starfinu fylgir. – Alltaf heitt á könnunni.

Góða helgi!

Til baka