52% sjúkraliða hafa íhugað af alvöru að hætta í starfi
28 okt. 2022
Í nýrri könnun Sjúkraliðafélags Íslands var leitast við að meta líðan sjúkraliða, sýn þeirra á launakjör, starfsumhverfi og mönnun. Um helmingur félagsmanna tók þátt í könnuninni eða 1.070 sjúkraliðar.
Helstu niðurstöður sýna að á síðustu tólf mánuðum hefur rúmlega helmingur sjúkraliða íhugað af alvöru að hætta störfum. Launakjör og álag í starfi eru meginástæður þess að sjúkraliðar hugsa sér til hreyfings í starfi.
Þessi könnun afhjúpar aðstæður stéttarinnar, en þriðji hver sjúkraliði segist hafa oft mætt til vinnu þar sem mönnun var ekki næg til að tryggja lágmarksöryggi skjólstæðinga sinna.
Helstu niðurstöður könnunarinnar má lesa hér:
Launakjör
Um 48% sjúkraliða eru óánægðir eða mjög óánægðir með launakjör sín.
Yfir 65% sjúkraliða innan LSH eru óánægðir eða mjög óánægðir með launakjör sín. Hjá hjúkrunarheimilunum er óánægjan mun minni eða um 37%.
Um helmingur 50 ára og eldri sjúkraliða segjast vera óánægðir eða mjög óánægðir með launakjör sín. Aðeins færri eða 43% sjúkraliða sem eru 29 ára og yngri eru óánægðir eða mjög óánægðir með launakjörin.
Tæplega helmingur þeirra sjúkraliða sem hefur 16 ára eða lengri starfreynslu eru mjög óánægðir eða óánægðir með launakjörin.
Af þeim sem hafa 5 ára eða styttri starfsreynslu segjast um 50% vera óánægðir eða mjög óánægðir með launakjörin.
Ákvörðun launasetningar
Flestum sjúkraliðum finnst mikilvægast að líta til ábyrgðar í starfi og hæfni þegar launasetning er ákvörðuð.
Áhersluatriði í næstu kjarasamningum
Hækkun grunnlauna skoraði langhæst sem mikilvægasta áhersluatriðið við næstu kjarasamninga. Næst mikilvægast skoraði umbun fyrir morgunvaktir og svo hærra vaktaálag um helgar.
Starfstengd réttindi og starfsumhverfi
Þegar litið er til starfstengdra réttinda og starfsumhverfis (aðbúnað og þjónustu á vinnustað) mældist aukinn orlofsréttur mikilvægast fyrir flesta (24,3%) og næstmikilvægast fyrir tæplega 13% sjúkraliða. Aukagreiðslur vegna hjúkrunar í einangrun voru mikilvægastar í huga rúmlega 11% sjúkraliða og næstmikilvægastar fyrir tæp 10%. Þegar sjúkraliðar voru beðnir að meta hvað væri næstmikilvægast hvað réttindi varðar, var svarið aukinn veikindaréttur og öryggi á vinnustað.
Yfirvinna
Yfir 75% sjúkraliða finnst skipta mjög miklu máli eða hæfilega miklu máli að geta unnið yfirvinnu.
Stytting vinnuvikunnar
Tæplega 30% sjúkraliða hjá LSH finnst stytting vinnuvikunnar hafa gengið mjög eða frekar vel en um 17% fannst hún hafa gengið mjög eða frekar illa.
Sé litið til ánægjunnar með styttinguna kemur í ljós að rúmlega 47% sjúkraliða innan LSH eru ánægðir eða mjög ánægðir með styttinguna fyrir sjálfan sig.
Innan hjúkrunarheimilanna telur rúmlega fimmtungur sjúkraliða að styttingin hafi gengið mjög eða frekar vel en um 36% sjúkraliða þar telja að hún hafi gengið hvorki né. Tæplega 30% telja að hún hafi gengið mjög illa eða frekar illa. Þegar spurt var hvernig viðkomandi sjúkraliða fannst styttingin hafa gengið fyrir sjálfan sig voru um 40% þeirra mjög eða frekar ánægðir.
Hjá heilbrigðisstofnunum út á landi taldi um fjórðungur sjúkraliða að styttingin hefði gengið mjög eða frekar vel. Rúmlega 30% töldu hana hafa gengið mjög eða frekar illa.
Að hætta í starfi
Tæplega 52% sjúkraliða hafa íhugað af alvöru að hætta í starfi síðustu 12 mánuði. Þetta er sláandi tala sem stjórnvöld þurfa að taka mið af.
Innan LSH hafa tæplega 59% sjúkraliða íhugað af alvöru að hætta síðustu 12 mánuði.
Um 55,4% sjúkraliða innan hjúkrunarheimila hafa hugsað sér slíkt, um helmingur þeirra sem starfa hjá heilbrigðisstofnunum út á landi og um 48% þeirra sem starfa í heimahjúkrun.
Um 51% þeirra sem hafa 16 ára eða lengri starfsaldur hafa íhugað að hætta og er það fyrst og fermst vegna starfstengds álags, stjórnarhátta á vinnustað og launakjara.
Um 55% þeirra sjúkraliða sem hafa unnið í minna en 5 ár segjast hafa hugsað af alvöru að hætta í starfi á síðustu 12 mánuðum (vegna launa og álags).
Helstu ástæður þess að sjúkraliði hafði íhugað að hætta á síðustu 12 mánuðum voru launakjörin (tæp 16%) og starfstengt álag (tæp 18%). Um 8% sjúkraliða nefndu stjórnunarhætti á vinnustað sem ástæðu þess.
Sjúkraliðar innan LSH nefndu helst launakjörin (22,7%) og starfstengt álag (22%) sem ástæðu og tæplega 4% stjórnunarhætti.
Innan hjúkrunarheimilanna er það helst starfstengt álag (20,75%) og stjórnunarhættir (12,58%) sem eru ástæðurnar.
Hjá sjúkraliðum á heilbrigðisstofnunum út á landi voru það launakjörin (18,56%) og starfstengt álag (15,45%) sem voru helst nefndar sem ástæður.
Í annarri könnun sem Sjúkraliðafélag Íslands gerði síðastliðið sumar komu einnig fram umhugsunarverðar tölur sem sýndu að 28% sjúkraliða töldu mjög líklegt eða talsverðar líkur að þeir myndu hætta í núverandi starfi næstu 12 mánuði. Fyrir Landspítalann var þessi tala yfir 30% og fyrir hjúkrunarheimilin var það næstum þriðji hver sjúkraliði sem taldi mjög líklegt eða talsverðar líkur að hann myndi hætta í núverandi starfi næstu 12 mánuði.
Mönnun
Þriðji hver sjúkraliði hafði oft mætt til vinnu þar sem mönnun var ekki næg til að tryggja lágmarksöryggi skjólstæðinga sinna.
Þessi tala er yfir 41% innan LSH, 31,1% hjá hjúkrunarheimilunum og tæplega 40% á heilbrigðisstofnunum út á landi.
Hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks
Þegar kemur að hugmyndum stjórnvalda að hækka hámarksaldur heilbrigðisstarfsfólks úr 70 ára í 75 ára var rúmlega helmingur frekar andvígur eða mjög andvígur þeirri hugmynd en tæp 8% mjög hlynnt.
Starfsánægja
Athygli vekur að rúmlega 80% segjast almennt ánægð í starfi, sem er vísbending um að fólki þykir vænt um fagið og starfið sitt, en aðstæður sem stéttinni er skapað eru íþyngjandi. Af þeim sem svöruðu kváðust 48% sjúkraliða óánægðir eða mjög óánægðir með launakjör sín. Almennt sé finnst sjúkraliðum mikilvægast að líta til ábyrgðar í starfi og hæfni þegar kemur ákvörðun launasetningar.
Yfir 81% sjúkraliða eru mjög ánægðir eða nokkuð ánægðir í starfi. Einungis um 6% eru óánægðir eða mjög óánægðir í starfi.
Um 78% sjúkraliða innan LSH voru mjög ánægðir eða nokkuð ánægðir í starfi. Þessi tala er 76% hjá sjúkraliðum innan hjúkrunarheimilanna. Ánægjan mælist enn hærri hjá sjúkraliðum sem starfa hjá heilbrigðisstofnununum út á landi eða um 87%, sem er svipað og hjá þeim sjúkraliðum sem starfa hjá heimahjúkrun.
Sé hópurinn skoðaður eftir lífaldri kemur í ljós að þeir sjúkraliðar sem eru eldri en 50 ára þá eru 80% þeirra mjög ánægður eða nokkuð ánægður í starfi. Um 77,5% þeirra sem eru 29 ára og yngri eru mjög ánægð eða nokkuð ánægð í starfinu.
Þegar er litið er til starfsaldurs þeirra sem hafa unnið 16 ár eða lengur kemur í ljós að um 80% þeirra eru mjög ánægð eða nokkuð ánægðir í starfi.
Yfir 80% þeirra sem hafa 5 ára eða minni starfsreynslu segjast vera mjög ánægð eða nokkuð ánægð í starfi.
Verkfall
Að lokum eru yfir 76% sjúkraliða mjög líklegir eða frekar líklegir að samþykkja verkfall ef Sjúkraliðafélag Íslands metur það svo að það þurfi til að knýja fram kjarabætur.