23. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands ályktar
14 maí. 2014
23 fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands var haldið í dag 14. maí.
Á þinginu voru samþykktar ályktanir sem hér með er komið á framfæri
Skortur á sjúkraliðum
23. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands haldið að Grettisgötu 89, 14. maí 2014, hefur áhyggjur af háum lífaldri sjúkraliða og vaxandi skorti á þeim. Samtímis fjölgar öldruðum um
3-4% á ári, næstu áratugina á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum og þar með eykst þörfin á sjúkraliðum enn frekar.
Þingið hvetur stjórnendur heilbrigðisþjónustunnar að leita allra leiða til að fjölga í sjúkraliðastéttinni, m.a. með jákvæðu viðhorfi til stéttarinnar og hvetja ófaglærða starfsmenn til að nýta sér þær námsleiðir sem í boði eru.
Menntun er einnig máttur á krepputímum og í henni felst tækifæri til framþróunar, aukinnar fagmennsku, ábyrgðar og leið til að vinna sig út úr hremmingunum sem hafa verið innan heilbrigðiskerfisins.
Þingið hvetur til þess að hlúð verði að heilbrigðisstarfsfólki og á því byggt upp kröftugt, faglegt heilbrigðiskerfi sem þjóðin getur verið stolt af til framtíðar.
Starfsumhverfið
23. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands haldið að Grettisgötu 89, 14. maí 2014, lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun starfsumhverfis sjúkraliðastéttarinnar. Í vaxandi mæli er því þannig fyrirkomið að sjúkraliðar fá ekki fulla vinnu og er stýrt inn á „akkorðsvaktir“ þar sem álagið er mjög mikið, en álagsgreiðslur lágar eða engar. Með þessu skerðast árslaunin gríðarlega og líkur á flótta úr stéttinni aukast til muna.
Fulltrúaþingið minnir á að samkomulagið um mismunandi lengd vakta var ætlað til að vaktavinnufólk gæti aðlagað fjölskyldulíf og vinnu. Greininni um mismunandi lengd vakta hefur verið misbeitt og við það hafa lífsgæði vaktavinnufólks skerst verulega.
Þess er krafist að vinnuveitendur virði starfsfólk í vaktavinnu til jafns við aðra og viðmiðunarlengd vakta verði átta tímar og vinnuskylda stytt.
Afleiðingar fækkunar sjúkraliða/fagfólks
23. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands haldið að Grettisgötu 89, 14. maí 2014, hefur þungar áhyggjur af fækkun sjúkraliða á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum.
Þingið leggur áherslu á mikilvægi fullnægjandi mönnunar sjúkraliða/fagfólks fyrir öryggi sjúklinga og gæði þjónustunnar og bendir á að bæði innlendar og erlendar rannsóknir sýna fram á tengsl milli fjölda sjúkraliða/fagfólks og afdrifa sjúklinga. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á aukna hagkvæmni í rekstri þar sem mannað er með vel menntuðu og reyndu fagfólki, því þá fækkar óvæntum atvikum og mistökum og legutími styttist.
23. fulltrúaþing SLFÍ mótmælir því harðlega að fyrirtæki sem makar krókinn á rekstri öldrunarþjónustu og opnaði nýverið hjúkrunarheimili á Reykjanesi með mönnun upp á 80-90% ófaglærðra starfsmanna, fái til þess leyfi án athugasemda frá Embætti landlæknis.
Eldri borgarar þessa lands eiga rétt á að af fá bestu mögulegu þjónustu, örugga og faglega.
Leiðrétting launa og trygging réttinda starfsmanna
hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu
23. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands haldið að Grettisgötu 89, 14. maí 2014, minnir á að fyrirtæki og stofnanir innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu eru fjármögnuð að langmestu leyti af skattfé almennings og fjárstuðningi þjóðarinnar.
Þingið lýsir fullri ábyrgð á hendur forystumanna Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu á þeirri vanvirðingu sem þeir sýna starfsfólki og heimilisfólki með því að þvinga starfsmenn í verkföll vegna krafna um lágmarksréttindi og eðlilega leiðréttingu launa. Þverskallast er við að viðurkenna réttindi starfsfólks sem alla tíð hefur notið starfsöryggis til jafns við opinbera starfsmenn og sætt sig við sömu kjör og þeir.
Þingið krefst þess að samninganefnd SFV verði veitt alvöru umboð til samninga og leggur til að æðstu stjórnendur innan samtakanna kynni sér og tileinki viðhorf í anda nútíma mannauðsstjórnunar.