Fréttir

Launakönnun SFR stéttarfélags í almannaþjónustu

19 sep. 2011

Blað SFR & STRVSFR stéttarfélag í almannaþjónustu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar hafa nú birt helstu niðurstöður nýrrar launakönnunar sem unnin er samhliða launakönnun VR.  Könnunin sýnir m.a. fram á að yfir 60% starfsmanna eru óánægðir með laun sín, launamunur kynjanna eykst, laun starfsfólks á almennum markaði hækka meir en opinberra starfsmanna auk þess sem fjárhagsleg staða heimila þeirra síðarnefndu er  mun lakari en annarra.

Niðurstöður könnunarinnar má sjá á heimasíðu SFR og heimasíðu STRV auk þess sem þær eru birtar í nýju blaði SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sem nú er verið að dreifa til félagsmanna. Þar má sjá ítarlegar niðurstöður þessarar nýju launakönnunar en hér á eftir hafa nokkur atriði sem vöktu hvað mesta eftirtekt verið dregin saman.

Álag í vinnu eykst á milli ára að mati félagsmanna SFR.  Ríflega 60% svarenda finnst sem álag hafi aukist í vinnunni á síðustu mánuðum, en fyrir ári voru það 56% svarenda sem töldu álag hafa aukist á síðustu mánuðum. Konur segja frekar en karlar að álagið hafi aukist og yngra fólki finnst álagið frekar hafa aukist en því eldra.

Það dregur úr ánægju með laun þriðja árið í röð og er ánægjan nú svipuð og 2008. Ríflega 18% svarenda eru ánægðir með launin nú, þeir voru 23% í fyrra og 27% árið þar áður. Ánægja með laun eykst með hækkandi launum og til samræmis við það sýnir það sig að karlar eru ánægðari með laun en konur og stjórnendur og sérfræðingar eru ánægðari með laun sín en aðrar starfsstéttir.

Félagsmenn telja um 407 þúsund vera sanngjörn laun, en talan var 409 þúsund í fyrra og 393 þúsund í hittið fyrra. Ef litið er á svörun karla og kvenna má sjá að karlar telja að meðaltali sanngjörn laun vera um 486 þúsund á mánuði og konum finnst sanngjörn laun vera talsvert lægri, eða um 376 þúsund á mánuði. Hlutfallslegur munur á raunverulegum launum og sanngjörnum launum minnkar hjá körlum, en stendur í stað hjá konum.

Könnunin leiddi í ljós að konur í fullu starfi eru að jafnaði með 24% lægri laun en karlar í fullu starfi. Meðalheildarlaun karla voru rúmar 394 þúsund krónur en meðalheildarlaun kvenna tæpar 301 þúsund krónur. Þegar tekið hefur verið tillit til aldurs, vinnutíma, starfsaldurs, starfsstéttar, menntunar og vaktaálags stendur eftir 13,2% óútskýrður kynbundinn launamunur (vikmörk +/- 3,9%).  Í fyrra mældist kynbundni launamunurinn 9,9% og árið 2009 var hann 11,8%

Heildarlaun SFR félaga í fullu starfi 1. febrúar 2011 voru 329 þúsund sem er um 1% hækkun frá fyrra ári. Karlar hækka að meðaltali  um 0,4% á milli ára og  konur um 1%. Í fyrra hækkuðu karlar um 3,8% og konur um 0,5%. Laun hækka samfara auknum starfsaldri og aukinni menntun og stjórnendur og sérfræðingar eru með 56% hærri laun en skrifstofufólk við afgreiðslu.

 

Til baka