18. fulltrúaþing - Ályktanir

18. fulltrúaþing - Ályktanir

Sjúkraliðafélags Íslands

Haldið þriðjudaginn 12. maí 2009.

 

 

 

Kjaramál

Fulltrúaþing Sjúkraliðafélags  Íslands  skorar á nýskipaða ríkisstjórn að sjá til þess að kjör almennra launþega verði  varinn eins og kostur er.  Þingið krefst / væntir þess að komið verði í veg fyrir frekari niðurskurð  í heilbrigðiskerfinu. 

Sjúkraliðar harma skilningsleysi fyrri stjórnvalda  á kröfu launþega um endurskoðun á  vinnutíma og vinnuumhverfi vaktavinnufólks. Þingið  gerir sér vonir um að með nýrri ríkisstjórn komi nýjar og breyttar áherslur til fjölskylduvænna vinnuumhverfis:

-         Styttri vinnuviku vaktavinnufólks

-         Starfsfólk í vaktavinnu öðlist rétt til að hætta á næturvöktum 50 ára

-         Sjúkraliðar  geti látið af störfum 65 ára án skerðingar á lífeyrisgreiðslum

-         Þjónusta leikskóla verði miðaður við þarfir vaktavinnufólks

-     Störf og starfssvið sjúkraliða verði virt og laus störf auglýst eins og lög gera ráð fyrir.

Fulltrúaþing sjúkraliða gerir þær kröfur til nýskipaðs heilbrigðisráðherra og ráðherra jafnréttismála að laun sjúkraliða verði  tekin til endurskoðunar og leiðrétt með tilliti til launa tiltekinna viðmiðunarstétta.

 

Menntamál

Fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands gerir kröfu til þess að forsvarsmönnum heilbrigðisstofnana verði skylt að ráða sjúkraliðanema til starfsþjálfunar m.t.t. fjölda sjúkraliða í starfi hjá viðkomandi stofnun.

Framhaldsnám í Geðhjúkrun verði komið á sem fyrst og eigi seinna en á vorönn 2010.

 

Lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra

Fulltrúaþing sjúkraliða fagnar þeirri ákvörðun Alþingis að verða við almennri kröfu launþegahreyfingarinnar um afnám  sértækra lífeyrisréttinda ráðherra og þingmanna.

 

Heilbrigðismál

18. fulltrúaþing SLFÍ leggur áherslu á að þrátt fyrir allar þrengingar verði komið í veg fyrir að dregið verði úr fjárveitingum til heilbrigðisþjónustunnar. Góð og skilvirk heilbrigðisþjónusta er besta fjárfesting sem völ er á.

Þingið krefst þess:

-         að komu- og þjónustugjöldum verði stillt í hóf  

-         aukið eftirlit verði með tannheilsu barna og unglinga.

-         komið verði á ókeypis tannlæknaþjónustu fyrir börn og unglinga 18 ára og yngri.

 

Þingið fagnar þeirri yfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar að  setja sér að markmiði að innleiða hér á Íslandi Norræn velferðarmarkmið í þágu almennings og að horfið skuli frá frekari áformum um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar.

 

Reynslan sýnir að heilbrigðisþjónustan verður ekki rekin með arðsemi eina að leiðarljósi. Einkavædd heilbrigðisþjónusta er dýrari, óhagkvæmari og í henni felst mismunun m.t.t. efnahags.

 

Heilbrigðisþjónusta sem byggð er á öflugu forvarnarstarfi er besta fjárfesting hverrar þjóðar.

 

Félagsstarfið

18. fulltrúaþing fagnar stofnun Ungliðadeildar Sjúkraliðafélags Íslands og gerir sér vonir um að með stofnun deildarinnar skapist vettvangur fyrir ungt fólk til að hafa áhrif á menntun og starfskjör stéttarinnar, er verði til þess að beina athygli  ungs fólks að sjúkraliðanáminu og skemmtilegum og uppbyggilegum starfsvettvangi.