Framhaldsnám

Nefnd um framhaldsnám sjúkraliða og viðbótarréttindi sem námið getur veitt þeim 

Nefnd um skilgreiningu viðbótarréttinda sem framhaldsnám fyrir sjúkraliða gæti veitt var skipuð var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra með bréfi dagsettu 11. maí 2000. Í nefndinni sátu: Ragnheiður Haraldsdóttir, skrifstofustjóri, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, formaður nefndarinnar. Hrefna Sigurðardóttir, forstöðumaður Skógarbæjar. Svava Þorkelsdóttir, hjúkrunarfræðingur, formaður Starfsgreinaráðs um heilbrigðis- og félagslega þjónustu. Sölvi Sveinsson, skólameistari Fjölbrautarskólans við Ármúla. Birna Ólafsdóttir, skrifstofustjóri, Sjúkraliðafélagi Íslands og Halla Eiríksdóttir, hjúkrunarforstjóri, Heilbrigðisstofnun­inni Egilsstöðum. Starfsmaður nefndarinnar var Margrét Erlendsdóttir, deildarstjóri, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.
 

Nefndin hélt tólf fundi og lauk störfum 24. janúar 2001. Ýmis gögn lágu fyrir sem nýttust í starfi nefndarinnar, m.a. upplýsingar um skort á sjúkraliðum til starfa, samkvæmt könnun landlæknisembættisins sem gerð var í febrúar 1999 og upplýsingar um fjölda útgefinna starfsleyfa sjúkraliða ár hvert á tímabilinu 1966 – 1998. Einnig var leitað út fyrir landsteinana eftir upplýsingum um menntun og störf sjúkraliða hjá nágrannaþjóðum okkar o.m.fl. Síðast en ekki síst gekkst nefndin fyrir könnun á ábyrgð og verksviði sjúkraliða á heilbrigðisstofnunum um allt land. Jafnframt var aflað ýtarlegra upplýsinga um ábyrgð, verksvið og störf sjúkraliða á tíu öldrunar­stofnunum með fleiri en fimmtíu hjúkrunarrými og könnuð voru viðhorf stjórnenda þessara öldrunarstofnana til fyrirhugaðs viðbótarnáms fyrir sjúkraliða og hvaða þætti þeir teldu að leggja bæri áherslu á í slíku námi.

Meðan hugmyndir nefndarinnar voru í mótun fékk hún til fundar við sig hjúkrunarforstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss, hjúkrunarforstjóra Heilsugæslunnar í Reykjavík, hjúkrunarforstjóra Hrafnistu og sviðsstjóra hjúkrunar á öldrunarsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þegar vinna nefndarinnar var á lokastigi voru tillögur hennar kynntar formönnum Sjúkraliðafélags Íslands og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.Hér á eftir fer álit nefndarinnar og tillögur hennar til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, ásamt greinargerð. 
 

1. Álit og tillögur nefndarinnar

Mikill skortur á sjúkraliðum til starfa veldur verulegum erfiðleikum innan heilbrigðisþjónustunnar og er vaxandi áhyggjuefni. Frá árinu 1983 hefur útgefnum starfsleyfum sjúkraliða farið fækkandi ár frá ári. Aldrei hafa verið gefin út færri starfsleyfi en árið 1999 eða samtals 23. Þetta er gífurleg fækkun miðað við þau ár þegar flest starfsleyfi voru gefin út, á árunum 1975 – 1982, en þá voru gefin út starfsleyfi fyrir 132 sjúkraliða að meðaltali á ári.

Skorturinn er hvergi meiri en á dvalar- og hjúkrunarheimilum aldraðra. Hlut­fall aldraðra af þjóðinni fer hækkandi og fyrirsjáanlegt er að þörf fyrir starfsfólk í heilbrigðisþjónustu aldraðra aukist verulega á næstu árum og áratugum, meira en á öðrum sviðum. Vaxandi áhersla er lögð á að fjölga úrræðum fyrir aldraða og auka á fjölbreytni þjónustu við þá. Þetta gerir kröfu um vel menntað starfsfólk með sérhæfingu á þessu sviði sem hefur góða yfirsýn yfir málaflokkinn. Gildir þetta jafnt um um stofnanaþjónustu aldraðra og þjónustu við aldraða í heimahúsum.

Með hliðsjón af framansögðu gerir nefnd um skilgreiningu viðbótarréttinda sem framhaldsnám fyrir sjúkraliða gæti veitt, eftirfarandi tillögur:


1.      Stofnað verði til tveggja anna viðbótarnáms fyrir sjúkraliða þar sem í fyrstu verði sérstök áhersla lögð á öldrunarþjónustu. Miðað verði við að sjúkraliðar sem lokið hafa viðbótarnáminu öðlist sérstaka færni við tiltekna umönnun. Gerð er nánari grein fyrir hugmyndum um uppbyggingu námsins í kafla 1.2. Fyrirkomulag viðbótarnáms fyrir sjúkraliða.

 

2.      Tryggja þarf að grunnmenntun sjúkraliða nýtist sem best í störfum þeirra innan heilbrigðisþjónustunnar.

 

3.      Tryggja þarf að sjúkraliðar sem ljúka viðbótarnámi í samræmi við tillögur nefndarinnar fái störf sem hæfa menntun þeirra og færni. Jafnframt þarf að tryggja að sjúkraliðar sem lokið hafa viðbótarnámi fái umbun í samræmi við aukna ábyrgð og þyngri starfskröfur.

 

4.      Til að tryggja þátt 2 og 3 leggur nefndin til að efnt verði til viðræðna um þessi mál milli þeirra er stýra heilbrigðisþjónustu á sviði stofnanaþjónustu og innan heilsugæslunnar, eftir því sem það á við. Heilbrigðisráðuneytið mun í samvinnu við Sjúkraliðafélags Íslands beita sér fyrir því að viðbótarnám fyrir sjúkraliða verði kynnt ítarlega fyrir forsvarsmönnum þeirra heilbrigðisstofnana sem málið varðar.

 

5.      Huga þarf að möguleikum landsbyggðafólks til að sækja viðbótarnámið. Í því skyni verði m.a. kostir fjarnáms skoðaðir sérstaklega, í samvinnu við menntamálaráðuneytið.

 

6.      Nefndin leggur áherslu á að hjúkrunarstjórnendur taki mið af þeim markmiðum sem hér eru sett fram og byggi starfslýsingar fyrir sjúkraliða sem lokið hafa viðbótarnámi á tillögum nefndarinnar.

1.2. Fyrirkomulag viðbótarnáms fyrir sjúkraliða

 

Viðbótarnám fyrir sjúkraliða miðar að því þeir fái aukna færni til að sinna sérstaklega neðangreindum verkefnum. Starfsgreinaráð um heilbrigðis- og félagslega þjónustu mun útbúa námsskrá í samræmi við þau markmið og þær tillögur sem hér koma fram.


1.2.1.     
Samskipti við aðstandendur og sjúklinga
Sjúkraliðar sem lokið hafa viðbótarnámi hafa þekkingu og færni til að gegna verkefnum og bera ábyrgð í samræmi við eftirfarandi:

 • Að vera tengiliðir við tiltekna skjólstæðinga og sinna samskiptum við þá og aðstandendur þeirra.
 • Að bera ábyrgð á ýmsum persónulegum eigum ásamt hjálpar- og stoðtækjum skjólstæðinga sinna og hafa umsjón með að hlutir til daglegra nota séu í samræmi við þarfir hverju sinni. 
 • Að þekkja persónuleg áhugamál og venjur skjólstæðinganna og beita sér fyrir því að tekið sé mið af þessu í daglegri umönnun.  Að fylgjast með því að frumþarfir hvers einstaklings séu í fyrirrúmi og gæta þannig margvíslegra hagsmuna skjól­stæðinga sinna á hverri legudeild eða annarri starfseiningu. 
 • Að hafa samskipti við aðstandendur sjúklings um margvíslega þætti er snerta starfssvið sjúkraliða og hjúkrunar, og vera tengiliðir aðstandenda í málum skjól­stæðinganna. 
 • Að tryggja að aðstandendur fái þær upplýsingar sem þeir þurfa að hafa um deildina, s.s. útgefið efni og ýmis skipulagsmál.
 • Að taka að sér tiltekna skjólstæðinga og vaka sérstaklega yfir hag þeirra og réttindum á sjúkradeildinni.
   

Fræðsla:

Hugmyndafræði heildrænnar/einstaklingsbundinnar hjúkrunar

Þroskaferill fjölskyldunnar

Inngangur að kennslufræði

Samskipti, tjáskipti, samtalstækni

Þroskasálfræði

Réttindi sjúklinga, sbr. lög nr. 74/1997

1.2.2.     Stjórnun og einstaklingsbundin hjúkrun

Viðbótarnám fyrir sjúkraliða veitir þeim þekkingu og færni sem miðast við að þeim sé falin aukin ábyrgð á ýmsum þáttum sem lúta að skipulagi og stjórnun í samræmi við eftirfarandi:

 

 • Þeir taka ábyrgð á tiltekinni stjórnun á sjúkradeildum og öðrum starfseiningum í ríkara mæli en áður. Í því felst m.a. að skipuleggja vinnu samstarfsmanna á vakt í samvinnu við stjórnanda deildar, starfsseiningar eða sviðs.

 • Þeir forgangsraða tilteknum verkum og meta hvað er brýnast hverju sinni. 

 • Þeir útdeila verkum til annarra sjúkraliða og ófaglærðs starfsfólks og fylgjast með framkvæmd þeirra verka. 

 • Þeir taka á móti nýjum sjúkraliðum og ófaglærðu fólki og kynna þeim störfin og starfsemi deildarinnar. Þeir eru tengiliðir við slíkt starfsfólk og leiðbeina því í ferli starfsaðlögunar.

 • Þeir sinna tilteknum sjúklingahópi á einingu/vakt og eru ábyrgir gagnvart yfir­manni, bæði hvað varðar eigin störf og einnig að þeir sem starfa undir þeirra stjórn sinni sínu af kostgæfni.
 • Á einingum þar sem einstaklingsbundin hjúkrun er viðhöfð, bera þeir ábyrgð á hjúkrun tiltekins einstaklings eða einstaklinga samkvæmt ákvörðun yfirmanns en geta líka haft eftirlit og skipulagt störf annarra fyrir þá einstaklinga.


Fræðsla:

Gæðastýring og stjórnun

1.2.3.     Aukin ábyrgð á skráningu upplýsinga og ýmis konar eftirliti
Viðbótarnám fyrir sjúkraliða veitir þeim þekkingu og færni sem miðast við að þeim sé falin aukin ábyrgð á ýmis konar eftirliti og skráningu upplýsinga í samræmi við eftirfarandi:

 

 • Þeir sinna auknu eftirliti með skjólstæðingunum og á það bæði við um árangur meðferðar og einkenni sjúkdóms, skv. ákvörðun og aðstæðum hverju sinni.
 • Þeir skrá athuganir sínar, t.a.m. í hjúkrunarferli, undir skráningarlið sem lýtur að framkvæmd hjúkrunar og í sumum tilvikum undir skráningarliðnum um mat á árangri meðferðar.
 • Þeir færa inn í ýmsar deildarbækur athuganir og mælingar sem þeir gera fyrir skjólstæðinga.
 • Sem stjórnendur taka þeir einnig að sér ýmis konar aukna skráningu, og verður það að taka mið af starfshefðum á hverjum stað.

 

Fræðsla:

Skráning hjúkrunar

Tölvunotkun

Upplýsingatækni

Tölvubókhald

Skjalavarsla

Ritvinnsla

RAI-mat

Ritun heimildaritgerða
 

1.2.4.     Aukið sjálfstæði á vöktum
Viðbótarnám fyrir sjúkraliða gerir þeim kleift að vera sjálfstæðari í störfum sínum í samræmi við eftirfarandi:

 • Að standa sjálfstæðar vaktir með hjúkrunarfræðing á bakvakt.
 • Að sinna sjúklingum og skjólstæðingum í samræmi við markmið/hjúkrunarferli og taka ákvörðun um hvenær kalla skal út aðstoð.
 • Að vera ábyrgir fyrir einni deild eða fleiri eftir því hve sjúklingarnir þurfa mikla hjálp. Hjúkrunarfræðingur er á bakvakt í húsinu eða utan þess, eftir aðstæðum hverju sinni.
 • Að skipuleggja vinnu sína og annarra eftir þörfum, framkvæma það sem gera þarf og gefa skýrslu um vaktina að henni lokinni.
 • Að meta ástand sjúklinga, þ.e. alvarleg frávik frá venjubundnu ástandi og meta hvenær slík frávik þarfnast viðbragða af hálfu sjúkraliðans/yfirmanns.

Fræðsla:

Öldrunarfræði

Öldrun og öldrunarsjúkdómar

Hjúkrun aldraðra

Ýmsir framkvæmdaþættir s.s. vökvameðferð og skolanir

Líkamsmat

Hjúkrun bráðveikra sjúklinga og sérhæfð skyndihjálp

Siðfræði, ábyrgð og ábyrgðarskylda

Lífeðlisfræði – dýpkun

Lyfhrifafræði


1.2.5.  Námsáfangar (miðað við framangreind verkefni og ábyrgðarsvið):

Sálfræði                                     SÁL 233, 333

Hjúkrun                                       HJÚ 133, 232, 235

Stjórnun                                      STJ 102

Tölvufræði                                  TÖL xx3

Tölvubókhald                             TÖB 102

Ritvinnsla                                    RIT 112

Heilbrigðisfræði                        HBF 306

Lífeðlisfræði                               LOL 312

Lyfhrifafræði                               LHF 213

Bóklegt nám:

Samtals 36 einingar á tveimur önnum

Verklegt nám:

8 vikur undi leiðsögn hjúkrunarfræðings, samtals 8 einingar.

Fjöldi eininga:

Árs viðbótarnám sjúkraliða til ákveðinna, skilgreindra réttinda, samtals 44 einingar.

Inntökuskilyrði:

Skilyrði fyrir inntöku sjúkraliða í viðbótarnám er að þeir hafi unnið með starfsréttindi sem sjúkraliðar í a.m.k. 3 ár. Nemendafjöldi verður takmarkaður og mun sérstök valnefnd ákveða hvaða umsækjendur verða teknir inn á grundvelli umsókna og ferilskrár hvers umsækjanda. 
 

1.3. Greinargerð með tillögum nefndarinnar


Á árabilinu 1966 – 1999 hafa verið gefin út starfsleyfi fyrir tæplega 2.900 sjúkraliða. Flest leyfi voru gefin út á árunum 1975 – 1982 eða að meðaltali 132 á ári. Eftir það fækkaði útgefnum leyfum til muna en fæst leyfi voru gefin út árið 1999, samtals 23.

 

Samkvæmt könnuninni Skortur á sjúkraliðum til starfa – febrúar 1999, sem landlæknisembættið vann fyrir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið er heildarfjöldi stöðuheimilda fyrir sjúkraliða 1.364 en aðeins 994 þeirra eru setnar sjúkraliðum. Skortur á sjúkraliðum nemur því 27% miðað við stöðuheimildir. Hjúkrunarforstjórar telja að miðað við hjúkrunarþörf þyrftu stöðugildi að vera mun fleiri, eða 1.852 og sé gengið út frá því nemur skortur á sjúkraliðum um 46% af heildarþörf.

 

Mest skortir sjúkraliða til starfa á dvalar- og hjúkrunarheimilum eða 52%. Stöðuheimildir sjúkraliða á þessum stofnunum eru alls 454 en meira en helmingur þeirra er setinn af ófaglærðum. Þegar skortur á sjúkraliðum er skoðaður út frá mati hjúkrunarforstjóra á heildarþörf kemur í ljós að hann er 74% á dvalar- og hjúkrunar­heimilum. Samkvæmt mati hjúkrunarforstjóra vantar því 610 sjúkraliða til starfa á dvalar- og hjúkrunarheimilum að því er fram kemur í könnun landlæknisembættisins.


Aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast og hlutfall aldraðra fer hækkandi. Árið 1996 var hlutfall 67 ára og eldri 9,8% af þjóðinni. Gert er ráð fyrir að þetta hlutfall verði komið í 10,6% árið 2010. Eftir það verður þessi þróun örari og samkvæmt spám verður hlutfall aldraðra af þjóðinni komið í 16,5% árið 2030. Því er augljóst að þörf fyrir starfsfólk í öldrunarþjónustu muni vaxa jafnt og þétt á komandi árum og áratugum.


Eins og fram er komið er skortur á sjúkraliðum hvergi meiri en á stofnunum fyrir aldraðra. Þá er fyrirsjáanlegt að þörf fyrir vel menntaða sjúkraliða muni aukast meira í öldrunarþjónustu á næstu árum en á nokkru öðru sviði heilbrigðisþjónustunnar. Umönnun og hjúkrun aldraðra krefst sérhæfingar. Með aukinni áherslu á að fjölga úrræðum fyrir aldraða og bæta þjónustu við þá eykst þörf fyrir sérhæft starfsfólk með góða yfirsýn yfir málaflokkinn. Gildir það jafnt um stofnanaþjónustu og þjónustu við aldraða í heimahúsum. Með þetta að leiðarljósi er það álit nefndar heilbrigðisráðherra um skilgreiningu viðbótarréttinda sem framhaldsnám sjúkraliða gæti veitt, að í viðbótarnámi fyrir sjúkraliða verði í upphafi lögð sérstök áhersla á nám sem nýtist í störfum innan öldrunarþjónustunnar.


Til að styðja framgang málsins leggur nefndin til að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra efni til samráðs við þá sem málið varðar í því skyni að árlega verði 15 – 20 sjúkraliðum gert kleift að stunda það framhaldsnám sem hér um ræðir.