Veikindaréttur

 • Ég þarf að sækja læknisþjónustu annars staðar en í minni heimabyggð. Á ég rétt á því að fá þá daga sem þetta tók greidda sem veikindadaga?

  Reglan um greiðslu veikindadaga er að viðkomandi sé óvinnufær. Það eru engin ákvæði í kjarasamningum um greiðslur til starfsmanna þegar þeir fara til læknis í vinnutíma, en raunin er sú að vinnuveitendur leyfa fólki almennt að skreppa frá vegna slíkra erinda eða annarra sem útilokað er að sinna nema á vinnutíma, án þess að draga frá launum þess eða að fara fram á að viðkomandi vinni af sér. Ef fólk velur hins vegar að sækja þjónustu, sem það getur fengið heimafyrir, eitthvert annað þá er varla hægt að fara fram á að fjarvera sé launuð. Það væri undir velvilja yfirmanna komið hvernig með væri farið.

 • Hvaða daga á að telja með þegar veikindadagar eru taldir?

  Þegar taldir eru veikindadagar eru allir dagar taldir, þ.e. almanaksdagar. Dæmi: ef starfsmaður er veikur frá miðvikudegi til mánudags þá eru laugardagur og sunnudagur taldir með.

   

  Hvenær skapast réttur hjá mér til að vera frá vinnu vegna veikinda barna ef ég er ný í starfi og hvenær á ég fullan rétt á þessum 10 dögum.

   

  BSRB hefur túlkað kjarasamningsákvæði 12.8 þannig að réttur til fjarvistar vegna veikinda barna skapast strax við ráðningu og er það fullur réttur. M.ö.o. það skapast strax réttur til að vera frá vinnu vegna veikinda barna í samtals 10 vinnudaga við ráðningu.

 • Hver er réttur eftirlifandi maka til lausnarlauna eða launa látins starfsmanns ?

  Varðandi lausnarlaun þá á maki látins starfsmanns rétt á föstum launum (föst laun eru mánaðarlaunin og föst yfirvinna en ekki t.d. bílastyrkur eða óregluleg yfirvinna) í þrjá mánuði og síðan er gert upp við hann það sem er áunnið eins og orlof, hlutdeild í desemberuppbót, orlofsuppbót o.s. frv.

 • Spurt er um réttindi starfsmanns sem er búinn með veikindarétt sinn og er óvinnufær.

  Starfsmaður getur átt rétt á greiðslum úr sjúkra- og styrktarsjóði stéttarfélags síns skv. reglum viðkomandi sjóðs. Þegar starfsmaður hefur verið frá vinnu launalaust í jafn langan tíma og hann átti rétt á að halda launum í veikindum má leysa hann frá störfum vegna heilsubrests. Fær hann þá greidd föst laun í 3 mánuði.