Útborgun mánaðarlauna

  • Endurgreiðsla vegna ofgreiddra launa

    Þegar laun eru ofgreidd vegna misskilnings launagreiðanda um staðreyndir, verða þau yfirleitt ekki endurheimt úr hendi grandlauss launþega. Hafi launþegi aftur á móti verið grandsamur um ofgreiðsluna, getur launagreiðandi átt rétt til endurheimtu þess fjár, sem ofgreitt var. Það sama á við, hafi launagreiðandi ofgreitt laun vegna rangra upplýsinga frá launþega eða annarra sambærilegra tilvika. Vegna eðlis launagreiðslna og þess aðstöðumunar, sem almennt er á milli launagreiðanda og launþega við uppgjör og útreikninga launa, verður þó að gera þá kröfu, að ekki verði verulegur dráttur á endurheimtu ofgreiddra launa. Verður að ganga út frá því að verulegt tómlæti launagreiðanda í þessu efni leiði til brottfalls endurkröfu hans. Það þarf hins vegar að meta hvert tilvik fyrir sig.

  • Hvenær er vinnuveitanda skylt að greiða út mánaðarlaun?

    Í 10. gr. laga um réttindi og skyldur nr. 70/1996 segir að föst laun skuli greidd eftir á fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Þeir ríkisstarfmenn sem fengu fyrirfram greidd laun þegar lögunum var breytt 1996 halda því og gildir það sama að þau eru greidd fyrsta virkan dag mánaðar. Í kjarasamningi bæjarstarfsmannafélaganna við Launanefnd sveitarfélaga segir í grein 1.1.1.1 að föst laun skuli greidd fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Þannig að ef fyrsti virki dagur mánaðarins lendir á t.d. 3. febrúar þá geta launagreiðendur haldið fast við það að greiða launin samkvæmt þessu.