Matartímar

 • Ég er að vinna hálfan daginn hjá stofnun í Reykjavík, á ég rétt á hálfum matartíma?

  Ef þú ert að vinna 50% starf  þá átt þú að skila 4 klst. og inn í því er kaffitími en matartími tilheyrir ekki vinnutíma. Þannig að ef þú ferð í mat þá lýkur vinnutíma síðar sem nemur þeim tíma sem þú tækir í matartíma.

 • Telst matartíminn til vinnutíma?

  Í 3. kafla kjarasamninga aðildarfélaga BSRB er fjallað um matar- og kaffitíma. Samkvæmt ákvæði 3.1.1 (númerið getur verið mismunandi eftir samningum) skal matartími vera á tímabilinu frá kl. 11:30til 13:30. Þá segir í ákvæðinu að matartími skuli vera 30 mínútur og teljist ekki til vinnutíma. (í sumum samningum 60 mín.) Það að matartími teljist ekki til vinnutíma þýðir það að starfsmaður fær hann ekki greiddan. Heimilt er að lengja, stytta eða fella niður bæði matar- og kaffitíma með samkomulagi fyrirsvarsmanna stofnunar og einfalds meirihluta þeirra starfsmanna, sem málið varðar, sbr. ákvæði 3.1.2. Sé það gert lengist eða styttist vinnudagurinn að sama skapi, sbr. ákvæði 3.1.3.

   

  Náist ekki samkomulag um að sleppa matartíma í hádeginu, færast ytri mörk vinnutímans til. Ef tekið er dæmi um upphaf og endi hjá starfsmanni í 100% starfshlutfalli, þar sem kaffitímar og matartími eru teknir skv. kjarasamningi, þá eru ytri mörk vinnudags hans frá kl. 08:00 til 17:00. Sé starfsmaður, sem vinnur  vanalega frá 8:00 til 17:00 og tekur matartíma í klukkutíma í hádeginu, beðinn einhverra hluta vegna að vinna í matartíma sínum þannig að matarhlé nái ekki fullum umsömdum tíma, skal matartíminn að sama hluta greiðast með yfirvinnukaupi skv. ákvæðum 3.3.1.

   

  Sé hins vegar samið eins og heimilt er skv. grein 3.1.2, þ.e. að fella hann niður, þá er ekki greidd yfirvinna enda lýkur vinnudegi þá fyrr sem nemur styttingu matartímans.