Lesa meira: Fyrirmyndarstjórnandi ársins 2018Sjúkraliðafélag Íslands hefur útnefnt Hildi Elísabetu Pétursdóttur fyrirmyndarstjórnanda ársins 2018. Hildur er deildarstjóri hjúkrunarheimilanna Eyrar á Ísafirði og Bergs í Bolungarvík og hefur verið frá opnun beggja heimila.

Val á fyrirmyndarstjórnanda ársins fer þannig fram að félagsmenn Sjúkraliðafélagsins eru hvattir til að fara yfir málin með vinnufélögum sínum, sjúkraliðum, og meta hvort ástæða sé til að tilnefna sinn stjórnanda. Við valið meta sjúkraliðar viðeigandi áhrifaþætti mannauðsstjórnunar, en í því fellst að þeir leggja mat á færni í mannlegum samskiptum, þekkingu og nýtingu á námi sjúkraliða, hvatningu til aukinnar þekkingar og þjálfunar á sértækum störfum við hjúkrun, nýtingu reynslu og hæfileika sjúkraliða, hvort stjórnandinn setji sig inn í störf starfsmanna, sýni sveigjanleika, hafi þekkingu á kjara- og stofnanasamningum, hvort hann hrósi og hvetji samstarfsfólk sitt og stuðli að bættum vinnuaðstæðum og virkri teymisvinnu.

Í umsögnum sjúkraliða um Hildi var bent á framúrskarandi eiginleika hennar í mannlegum samskiptum og hversu vel hún nýtir faglega hæfni og færni sjúkraliða í störfum sínum. Sjúkraliðafélag Íslands óskar Hildi Elísabetu hjartanlega til hamingju með útnefninguna.

Frétt bb um valið á fyrirmyndarstjórnanda ársins 2018; mynd af Hildi Elísabetu birt með góðfúslegu leyfi Bæjarins Besta á Ísafirði.

Frétt á vef Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um valið