Lesa meira: Hálendisferð SLFÍ sumarið 2018

Enn eru laus pláss í hálendisferðina dagana 13. til 16. júlí.

Að þessu sinni verður farið um Fjallabaksleið syðri og nyrðri. Ferðin kostar sjúkraliða 35.000 kr. en utanfélagsmenn greiða 50.000 kr. ef það er laust pláss.

Skráning fer fram á skrifstofu félagsins í símum 553 9493 og 553 9494. 

Friðland að Fjallabaki er allt ofan við 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Landið er mótað af eldvirkni og jarðhita. Litadýrð er mikil, meðal annars fyrir líparít og hrafntinnu í fjöllum. Fjölbreytt og sérstakt landslag en viðkvæmt lífríki. Megineinkenni Friðlands að fjallabaki er öræfaauðn og kyrrð.

Dagur 1 Lagt af stað frá SLFÍ að morgni föstudagsins 13. júlí kl. 8.00. Ekið að Keldum á Rangárvöllum og upp á Fjallabaksleið syðri, inn á Reykjadalaleið. Gist í Dalakofa, skála í eigu Útivistar sem stendur á brúnum dalkvosar sem Markarfljót rennur um.

Dagur 2 Gengið um háhitasvæðið í nágrenni Hrafntinnuskers, um Reykjadali og Stórahver og frá Hrafntinnuskeri í Landmannalaugar, um það bil 12 kílómetra ganga. Nesti fyrir daginn. Gist í Landmannalaugum.

Dagur 3 Lagt af stað eftir morgunmat áleiðis í Hólaskjól, með viðkomu í Eldgjá sem er um það bil 40 kílómetra löng gossprunga norður frá Mýrdalsjökli að Gjátindi. Gengið inn í Eldgjá, 2ja til 3ja tíma ganga. Nesti fyrir daginn. Gist í Hólaskjóli.

Dagur 4 Ekin Fjallabaksleið syðri, Álftavatnskrókur, Emstruleið og niður á þjóðveg. Áætluð koma til Reykjavíkur kl. 20.00. Sameiginlegur kvöldverður. Hver ferðafélagi taki með sér nesti, sundföt fyrir hugsanlegt fjallabað og bakpoka tilbúinn í gönguferð. Gengið er um jarðhitasvæði og því mikilvægt að vera sérlega vel skóaður.