Rætt um aðild sjúkraliða að hjúkrunarráði LSH - 10. okt. 2018

LSH heimsókn

 

Síðastliðinn föstudag fóru þau Sandra Franks, formaður SLFÍ og Gunnar Ö. Gunnarsson, framkvæmdastjóri SLFÍ, á fund Páls Matthíassonar, forstjóra LSH og Önnu Sigríðar Baldursdóttur, aðstoðarmanns forstjóra, til að ræða um störf, starfsumhverfi og stöðu sjúkraliða á spítalanum.

Rætt var um beiðni SLFÍ um aðild að Hjúkrunarráði LSH, en ráðið er sameiginlegur umræðuvettvangur hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra spítalans um hjúkrun og hjúkrunarþjónustu stofnunarinnar.

Sjúkraliðar starfa að jafnaði við nærhjúkrun og sinna almennum og sérhæfðum umönnunar- og hjúkrunarstörfum. Það er því í ósamræmi við alla almenna umræðu um hjúkrunarþjónustu að gera ekki ráð fyrir að rödd sjúkraliða heyrist á þessum mikilvæga sameiginlega umræðuvettvangi. Í starfsstétt sjúkraliða liggur haldgóð þekking sem m.a. styrkir markvissa umræðu um samvinnu fagstétta, mönnun hjúkrunar og hjúkrunarþjónustu.

Á fundinum var einnig rætt um starfsþróun sjúkraliða og starfsumhverfi þeirra á spítalanum. Áhyggjur SLFÍ af skorti á sjúkraliðum og hugmyndir að leiðum að fjölskylduvænni vinnustað.

Vel var tekið í hugmyndir félagsins og bindur formaður félagsins vonir við að Landspítalinn, sem og aðrir vinnustaðir sjúkraliða, styrki stöðu stéttarinnar og geri sjúkraliðum kleift að líða vel í þeim störfum sem þeir takast á við hverju sinni.