Brugðist hart við #metoo byltingunni - 29. júní 2018

metto

 

 

 

Félags- og jafnréttismálaráðherra skipaði nýlega tvo starfshópa sem fulltrúi BSRB ásamt öðrum aðilum vinnumarkaðarins, Vinnueftirlits, Jafnréttisstofu og Félagi kvenna í atvinnulífinu eiga sæti í. Verkefni annars hópsins er að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði og aðgerðir atvinnurekenda í tengslum við slík mál á vinnustöðum og gert er ráð fyrir að hópurinn standi fyrir þríþættri rannsókn í þessum tilgangi. Hins vegar er um að ræða aðgerðarhóp sem ætlað er að vinna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Núgildandi reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum leggur ríkar skyldur á herðar atvinnurekenda að fyrirbyggja og stöðva áreitni og ofbeldi á vinnumarkaði. Samkvæmt henni ber atvinnurekendum skylda til að gera skriflegt áhættumat og áætlun um forvarnir til að koma í veg fyrir slíka hegðun og þær aðgerðir sem grípa skuli til ef þetta hátterni á sér stað eða hefur átt sér stað. 

BSRB, ASÍ, BHM, KÍ, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa hafa gefið út netbækling þar sem farið er yfir ýmis atriði tengt kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Þá hefur fræðslubæklingur um áreitni og ofbeldi verið þýddur á ensku ( Sexual and gender-based harassment and violence in the workplace) og pólsku (Przemoc i napastowanie na tle seksualnym w zakładach pracy).

Í bæklingnum er farið yfir skilgreiningu kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni og ofbeldis. Þar má finna dæmi um þá hegðun sem fellur undir þessar skilgreiningar og skyldur atvinnurekenda vegna slíkrar hegðunar. Þá er einnig farið yfir úrræði fyrir einstaklinga sem telja sig hafa orðið fyrir slíkri hegðun.

Í bæklingnum eru lykilhugtökin skilgreind á eftirfarandi hátt:

 - Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi ogskapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

 -  Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

 -  Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt,þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.