Lesa meira:  Undirritað samkomulag um nýtt lífeyrissjóðakerfi fari í allsherjaratkvæðagreiðslu

Landssamband lögreglumanna (LL), Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSOS), Sjúkraliðafélag Íslands (SLFÍ) og Tollvarðafélag Íslands (TFÍ) hafa farið þess formlega á leit við BSRB, að fram fari bindandi allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna bandalagsins um fyrirhugaðar breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna.

 Í októberbyrjun fóru LL, LSOS, SLFÍ og TFÍ fram á það við Gísla Tryggvason lögmann að gefa álit á því hvort: „rétt sé og jafnvel lagalega skylt að bera samkomulagið undir bindandi allsherjaratkvæðagreiðslu hlutaðeigandi félagsmanna allra þeirra stéttarfélaga sem málið varðar.“ Eftir ítarlega gagna- og upplýsingaöflun hefur Gísli komist að þeirri rökstuddu niðurstöðu að svarið sé nær örugglega jákvætt um fyrri spurninguna og líklega jákvætt við hinni síðari. GT kemst að þeirri niðurstöðu að af fordæmum, langri hefð um framkvæmd kjara- og réttindamála opinberra starfsmanna og þróun á sviði vinnumarkaðsréttar og stjórnskipunarréttar leiði að skýra beri 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar um samningsrétt um „réttindi tengd vinnu“ þannig að verulegar efnisbreytingar um mikilvæg réttindamál launafólks, svo sem félagsleg lífeyrisréttindi, skuli afgreiddar endanlega með bindandi allsherjaratkvæðagreiðslu.

Hugsanlegt er talið að vanhöld á þessu gæti leitt til ógildingar ef á það reyndi með réttum hætti,“ segir ennfremur í lögfræðiálitinu.                

Í álitsgerðinni segir meðal annars um þessa niðurstöðu: „Telja verður nær öruggt samkvæmt framangreindu að stéttarfélögum utan sem innan heildarsamtaka sé í sjálfsvald sett hvort þau ákveði - einhliða og jafnvel, í þessu tilviki, eftirá - að bera samkomulag frá 19. september sl. milli Bandalags háskólamanna (BHM), BSRB og Kennarasambands Íslands (KÍ), annars vegar, og fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. ríkissjóðs, og Sambands íslenskra sveitarfélaga, hins vegar, um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna undir allsherjaratkvæði allra hlutaðeigandi félagsmanna sinna.

Líklegt er að hlutaðeigandi heildarsamtökum sé beinlínis skylt samkvæmt þeim rökum sem að framan eru rakin að efna til slíkrar allsherjaratkvæðagreiðslu í samráði við viðsemjendur og samstarfi við aðildarfélög sín og þá sem standa utan samkomulagsins. Hugsanlegt er að þetta væri ógildingaratriði ef á það reyndi fyrir dómi. Niðurstaðan felur í sér að allsherjaratkvæðagreiðsla allra hlutaðeigandi félagsmanna þeirra stéttarfélaga sem eiga í hlut sé sú stofnun sem er til þess bær að samþykkja endanlega og með bindandi hætti breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna sem samið var um hinn 19. september sl. Komist er að þeirri niðurstöðu að af fordæmum, langri lagahefð og framkvæmd kjara- og réttindamála opinberra starfsmanna leiði að skýra beri 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar um samningsrétt um „réttindi tengd vinnu“ þannig að verulegar efnisbreytingar um mikilvæg réttindamál launafólks, svo sem [félagsleg] lífeyrisréttindi, skuli afgreiddar endanlega með bindandi allsherjaratkvæðagreiðslu.“

Í lögfræðiálitinu er meðal annars fjallað um það hvort umræddar breytingar á lífeyrisréttindum feli í sér brot á ákvæðum í stjórnarskrá lýðveldisins. GT kemst að þeirri niðurstöðu að ef fram fari allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna allra þeirra stéttarfélaga sem málið varðar, standist það ákvæði 2. mgr. 75 gr. stjórnarskrárinnar og sé niðurstaða slíkrar kosningar bindandi og lögleg.                           Ástæðan er sú að ákvörðun í slíkri allsherjaratkvæðagreiðslu fæli aðeins í sér gilda ráðstöfun til þess bærs aðila á réttindum og skyldum í samræmi við meginreglur vinnumarkaðsréttar.                                                                                                                                                

Til þess bær aðili er samkvæmt áliti þessu ekki formenn eða aðrir fulltrúar heildarsamtaka launafólks á hlutaðeigandi vinnumarkaði eða samninganefndir á vegum þeirra; á það bæði við um stéttarfélög innan þessara heildarsamtaka - svo sem LL, LSOS, SLFÍ og TFÍ og stéttarfélög utan þeirra.                                                                                                                                                                                    

Til þess bær aðili í þessu tilviki er allsherjaratkvæðagreiðsla samkvæmt meginreglu vinnumarkaðsréttar, 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrár og tilvitnaðra laga; í allsherjaratkvæðagreiðslu er með gildum hætti unnt að ráðstafa réttindum og skyldum bótalaust, svo fremi sem gætt sé málefnalegra sjónarmiða, þ.e. ekki mismunað í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár.                                                                        

Verði slík allsherjaratkvæðagreiðsla ekki framkvæmd telur GT á hinn bóginn ekki aðeins líklegt samkvæmt framansögðu að brotið sé gegn 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrár. Við þær aðstæður verður einnig að telja hugsanlegt að dómstólar myndu fallast á að vegið hefði verið efnislega að stjórnarskrárvörðum rétti skv. 72. gr. stjórnarskrár; væri staðan þá í reynd sú að atvinnurekandi, sem hefur [fullvalda] löggjafarvald á hendi, hefði - að undangengnu samkomulagi við fulltrúa heildarsamtaka, sem sum stéttarfélög eiga ekki aðild að - ráðstafað einhliða stjórnarskrárvörðum réttindum [tug]þúsunda launafólks og þar með talið skert í sumum tilvikum. Líklegt er að dómstólar myndu víkja slíkum breytingum til hliðar (frekar en að láta þær standa gegn bótaskyldu). Verður þá að líta til þess að lengi hefur almennt verið litið svo á að þrátt fyrir aðild atvinnurekenda að stofnun, uppbyggingu og stjórnun lífeyrissjóðanna teljist framlög í þá - hvort sem það er eiginlegt eigið framlag eða svonefnt mótframlag atvinnurekenda - eign þeirra launþega.                                                                                                

Réttindi í lífeyrissjóði er stjórnarskrárvarin eign launafólks sem eru sjóðfélagar í þeim - en ekki atvinnurekenda - þótt þeir eigi enn aðild að rekstri þeirra eins og að framan greinir. Litið hefur verið á greiðslur atvinnurekenda til lífeyrissjóðanna sem hluta af launakjörum. Ekki er vitað til þess að dómstólar hafi hnekkt þessum - nokkuð almenna - lagaskilningi. Enn síður eru lífeyrissjóðir eign ríkisins enda þótt þeir hafi opinbera hagsmuni að leiðarljósi eða almannahag. Í samræmi við framangreinda niðurstöðu GT, telja LL, LSOS, SLFÍ og TFÍ, skylt að fram fari bindandi allsherjaratkvæðagreiðsla meðal hlutaðeigandi félagsmanna allra þeirra stéttarfélaga sem málið varðar: BSRB, Bandalag háskólamanna (BHM) og Kennarasamnand Íslands (KÍ), Auk þess verði stéttarfélögum utan heildarsamtaka boðið að taka þátt.

Hér er hægt að lesa ítarlega rökstutt álit Gísla Tryggvasonar, hdl.ásamt fylgiskjölum