Sjúkraliðafélag Íslands ályktar - 26. nóv. 2009

Ályktun framkvæmdarstjórnar Sjúkraliðafélags Íslands  um skerðingu greiðslna í fæðingarorlofi

Sjúkraliðafélag Íslands tekur undir ályktun BSRB að fyrirhuguð skerðing gangi þvert gegn tilgangi laganna um fæðingarorlof sem er að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, tryggja að börn njóti samvista við foreldra sína á fyrstu mánuðum ævi sinnar og gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Enn á ný boðar ríkisstjórnin skerðingu á réttindum almennings með væntanlegu frumvarpi félagsmálaráðherra um skertar greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi. Samkvæmt boðuðu frumvarpi um hámarksgreiðslur til foreldra lækka þær úr 350 þúsund krónum í 300 þúsund frá og með næstu áramótum.

Skerðing á greiðslum í fæðingarorlofidregur stórlega úr líkum þess að framangreind markmið laganna séu tryggð - hún er þvert á móti mikil afturför og aðför að jafnréttismálum. Það er staðreynd að karlmenn sem taka fæðingarorlof hafa að jafnaði hærri laun en konur. Með skerðingu greiðslna er ástæða til að óttast mjög að feður nýti síður rétt sinn til orlofs.

Þetta er þriðja lækkunin á hámarksgreiðslum á rétt rúmu ári en samtals hafa þær lækkað um 44%. Sjúkraliðafélag Íslands  gerir þá kröfu að aðgerðir stjórnvalda til að mæta fjárlagahalla næstu ára skerði ekki réttindi fólks og að staðinn verði vörður um lífskjör láglauna- og millitekjufólks.

Sjúkraliðafélag Íslands krefst þess að sú sparnaðarkrafa sem hefur verið lögð á Fæðingarorlofssjóð verði endurskoðuð. Um leið vill félagið minna á þá staðreynd að íslenska fæðingarorlofskerfið hefur vakið mikla athygli og nágrannaþjóðir hafa horft til þess sem fyrirmynd að breytingum hjá sér. Ef sparnaðarkröfunni verður haldið til streitu er verið að hverfa áratug aftur í tímann og vega að þeirri mikilvægu jafnréttishugsun sem í kerfinu felst.

Fyrir hönd Framkvæmdastjórnar Sjúkraliðafélags Íslands

Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður