Ályktun félagsstjórnar - 17. nóv. 2006

Ályktun fundar félagsstjórnar Sjúkraliðafélags Íslands haldinn fimmtudaginn 16. nóvember 2006 að Grensásvegi 16, Reykjavík. Félagsstjórn SLFÍ er skipuð formönnum  níu félagsdeilda sjúkraliða sem eru starfandi ein í hverjum landshluta.

 

 

Skortur á hæfu starfsfólki til hjúkrunarstarfa hefur verið vaxandi vandamál heilbrigðisþjónustunnar um árabil, sem bregðast varð við með einhverjum hætti. Innflutningur á erlendu vinnuafli til að leysa þann vanda er skammgóður vermir og alls ekki ásættanleg lausn til frambúðar. Félagið hefur í fjöldamörg ár leitað leiða til að auka aðsókn ungs fólks að sjúkraliðanáminu með kynningu á starfinu og útgáfu kynningarbæklings o.fl..

Félagsstjórn Sjúkraliðafélags Íslands harmar þá óupplýstu umræðu og undirskriftir sem gengið hafa á vinnustöðum sjúkraliða síðustu vikur um nám á sjúkraliðabrú, sem hófst á haustönninni

 

 

Ein þeirra leiða sem þeim er málið varðar: menntamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og síðast en ekki síst fulltrúaþingi félagsins, fannst áhugaverð, var að gefa starfsmönnum sem um árabil hafa unnið við aðhlynningu og hjúkrun kost á að afla sér starfsréttinda með aukinni menntun. Menntun sem byggði á reynslu þeirra, þroska og fyrri störfum.

 

Námsskrá menntamálaráðuneytisins gerir ráð fyrir að í engu sé slakað á kröfum í faggreinum.

 

Félagsstjórn hvetur sjúkraliða til að skoða málið af  sannsýni og sanngirni og gera það sem í þeirra valdi stendur til að auðvelda þessum starfsfélögum okkar námið og verða ekki til að leggja stein í götu þeirra.

 

Það er sannfæring félagsstjórnar Sjúkraliðafélags Íslands að með þeim liðsauka sem liggur í brúarförunum eigi sjúkraliðastéttin eftir að eflast.

Sjúkraliðar verum minnugir þess að:

Samstaða er afl sem ekkert fær staðist.

 

Ályktunin var samþykkt einróma með öllum greiddum atkvæðum