Fjölmennur fundur sjúkraliða ályktar - 15. nóv. 2004

Fjölmennur félagsfundur Sjúkraliðafélags Íslands haldinn mánudaginn 15. nóvember 2004 að Grettisgötu 89, í Reykjavík samþykkti eftirfarandi ályktun einróma um kjarabaráttu  kennara 

 

Félagsfundur sjúkraliða vill að gefnu tilefni mótmæla gerræðislegri  ákvörðun ríkisstjórnar og meirihluta Alþingis um að svipta grunnskólakennara lög- og stjórnarskrárbundnum réttindum til að semja um kaup og kjör.

 

Með ákvörðun sinni hafa stjórnvöld valdið kennurum og samtökum þeirra óbætanlegum fjárhags- og félagslegum skaða og gert að engu baráttu þeirra fyrir bættum kjörum stéttarinnar og betra skólastarfi með hæfu starfsfólki. 

 

Fundur sjúkraliða ítrekar mótmæli við  tvöföldu siðgæði ráðherra og þingmanna, sem ítrekað hafa tekið við launahækkunum og lífeyrisréttindum sem eru í engu samræmi við þau kjör sem almenningi er ætlað að sætta sig við. Með ákvörðun Alþingis í gær er staðfestur sá sannleikur um viðhorf þingmanna til þjóðarinnar, sem varað var við og birt í ályktun fulltrúaþings sjúkraliða vorið 2003, sem er svohljóðandi:

 

Sjúkraliðafélag Íslands mótmælir harðlega siðleysi Alþingis sem birtist í samþykkt meirihluta þess um eftirlaun forsætisráðherra, ráðherra og þingmanna. Með samþykkt sinni staðfestir þingið með ótrúlegum hætti viðhorf sitt til þjóðarinnar og staðfestir aðskilnað almennings,  þings og þjóðar.

 

Fundur sjúkraliða skorar á önnur launþegasamtök í landinu ASÍ BSRB, BHM og Samband ísl. bankamanna að taka höndum saman í vörn um samningsrétt launþega.