Ályktanir 11. fulltrúaþings Sjúkraliðafélags Íslands, miðvikudaginn 14. maí 2003   - 15. maí 2003

Fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands mótmælir harðlega því tvöfalda siðferði kjaradóms sem birtist í úrskurði hans um laun æðstu embættismanna, ráðherra og þingmanna. Með dómi sínum ákveður kjaradómur með ótrúlegum hætti  kjaralegan aðskilnað almennings og embættismanna,  þings og þjóðar.

Menntun stéttarinnar

 

Fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands fagnar áfangasigri stéttarinnar með meiri menntun og aukið starfssvið. Merkur áfangasigur  er árs- viðbótarnám sjúkraliða sem er stéttinni mikils virði sem vegvísir inn í framtíðina. Sjúkraliðar binda miklar vonir við sérnámið sem þeir telja að eigi eftir að gefa stéttinni ný tækifæri til fjölþættari og ábyrgðarmeiri starfa

Úrskurður kjaradóms er ávísun á kröfu verkalýðshreyfingarinnar um sömu kjarabætur fyrir umbjóðendur sína. Kröfur sem leiða munu til ófriðar, óstöðugleika og harðvítuga kjarabaráttu launþega í komandi kjarasamningum.

 

Þingið leggur áherslu á að forusta félagsins taki  upp viðræður við stjórnvöld og skóla um þrepaskipt nám sjúkraliða. Nám sem gæfi fólki kost á að afla sér réttinda í áföngum. Jafnframt verði það skoðað að setja af stað nám í fullorðinsfræðslu á sjúkraliðabraut fyrir þá sem hafa unnið við aðhlynningu um tiltekinn tíma og njóta viðurkenningar stjórnenda fyrir farsæl störf. Þingið hvetur heilbrigðisráðherra og forsvarsmenn sveitarfélaga sem eru með fjölda hæfra starfsmanna í þjónustu sinni að beita sér fyrir fagmenntun þeirra.

 

Fulltrúaþingið fagnar aðild félagsins að Framför miðstöð um símenntun á vegum Heilbrigðisskólans við Ármúla. Þingið telur þeim fjármunum sem félagið hefur veitt til eflingar á tækjabúnaði skólans vel varið. Með framtaki sínu stuðlar félagið að betra aðgengi sjúkraliða að menntun án tillits til búsetu. Þingið leggur áherslu á að félagið haldi vöku sinni til að bæta aðgengi sjúkraliða að námi.

 

 

Rekstur heilbrigðisstofnanna

Fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands krefst þess að leyst verði úr bráðum fjárhagsvanda heilbrigðisþjónustunnar og sérstakt átak verði gert til að bæta fjárhag elli- og hjúkrunarheimila, sem um árabil hafa verið rekin með halla.

 

 

Þjónustu við aldraða og öryrkja

Fulltrúaþingið  leggur áherslu á að stjórnvöld leggi fram aukna fjármuni og krafta til að leysi úr bráðum vanda aldraðra og auki möguleika þeirra til vistunar á hjúkrunar- og öldrunarheimilum eða fái notið ásættanlegrar heimahjúkrunar. Það er óásættanlegt fyrir alla er málið varðar, aldraða, öryrkja og aðstandendur þeirra að sætta sig við að aldraðir þurfi að liggja mánuðum saman á sjúkrahúsum sökum þess að ekki er í önnur hús að venda, vistun sem hentar heilsufari og getu þessara skjólstæðinga samfélagsins.

 

 

Atvinnumál

Fulltrúaþing sjúkraliða krefst þess að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að skapa atvinnulausum tækifæri til starfa. Langvarandi atvinnuleysi er ávísun á varanlegt heilsuleysi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir einstaklinga sem fyrir því verða til ómældra útgjalda fyrir þjófélagið. Þingið leggur til að lög um atvinnuleysisbætur verði tekin til endurskoðunar. Hvorki einstaklingar eða fjölskyldur eiga möguleika á að draga fram lífið á atvinnuleysisbótum eins og þær eru nú samkvæmt lögum.

 

 

Skattamál

Fulltrúaþing sjúkraliða fagnar frumkvæði BSRB og nýrri hugsun sem stuðlar að endurskoðun á hvort hægt sé að einfalda gildandi skattalög. Með hugmyndum sínum að breytingum og einföldun gildandi skattalaga er lagt til að tekið sé meira tillit til afkomu láglaunahópa, barnafjölskyldna og húsbyggenda. Jafnframt er lagt til að skattheimtan verði einfaldari og gegnsærri heldur en er samkvæmt gildandi lögum.

 

 

Trúnaðarmannafræðsla

Þingið leggur til að haldið verði áfram þeirri uppbyggingu á fræðslu trúnaðarmanna sem þegar er hafin og hvetur fræðslunefnd BSRB til að halda áfram á sömu braut. Fulltrúaþingið þakkar bandalaginu frumkvæði og framtíðarsýn á mikilvægi öflugrar menntunar sem nýtist til uppbyggingar á innra starfi félaganna.