Trúnaðarmaður sjúkraliða á Arnarholti vinnur mál gegn atvinnurekanda sínum. - 13. nóv. 2002

Mál þetta var höfðað 12. nóvember 2001, þingfest 15. sama mánaðar og dómtekið 26. september 2002. Stefnandi var Halldóra Guðmundsdóttir trúnaðarmaður á Arnarholti gegn Landspítala háskólasjúkrahúsi.

Af hálfu stefnanda flutti málið Gísli Guðni Hall hdl. en af hálfu stefnda Óskar Thorarensen hrl.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

Málavextir voru þeir að Halldóra sem starfað hefur til margra ára á Arnarholti, sem var deild innan geðsviðs Borgarspítala er málsatvik áttu sér stað, varð fyrir því að yfirmenn hennar áminntu hana með bréfi. Tilefni áminningarinnar var að mati félagsins algjörlega tilefnislaus.

Forsendur áminningarinnar var að Halldóra neitaði að mæta á fund með yfirmönnum. Hún taldi sig hafa rétt til þess að mæta með fulltrúa félagsins sér við hlið á fundinn í stað þess að funda ein með tveimur yfirmönnum.Til staðfestingar þessu lagði hún fram skriflega yfirlýsingu, að þar sem að um laugardag væri að ræða og ekki næðist í neinn frá skrifstofu Sjúkraliðafélagsins óskaði hún eftir að fundurinn væri haldinn á öðrum tíma. Í stað þess að verða við þessum tilmælum trúnaðarmannsins var honum afhent eftirfarandi áminningarbréf:

'Hér með er þér gefin skrifleg áminning vegna þess, að þú neitaðir að mæta í viðtal við hjúkrunardeildastjóra og hjúkrunarframkvæmdastjóra geðsviðs í dag 31. maí 1997. Jafnframt er minnt á fyrri munnlegar áminningar sem þér hafa verið veittar.'

Eftir langt ferli var áminningin felld úr gildi þann 3. maí 2000 með bréfi frá félagsmálaráðuneyti, eftir að hafa verið á borðum umbðsmanns Alþingis og  félagsmálaráðuneytis. Á meðan á þessu langa ferli stóð taldi Halldóra sig hafa verið látin gjalda þess að hún mótmælti áminningunni, með missi á yfirvinnu sem var mikil á tímabilinu.  

Stefnandi krafðist þess að stefnda yrði gert að greiða áætlaðan tekjumissi auk vaxta, miskabóta og alls málskostnaðar.

Dómurinn féllst á að stefnda væri gert að greiða stefnanda miskabætur og allan málskostnað, en þar sem ekki hafi verið fulljóst hvert launatap stefnanda væri féllst dómurinn ekki á slíkar greiðslur.

Ekki liggur fyrir hvort að málinu verði áfrýjað til hæstaréttar.

Nánar verður fjallað um málið í næsta tbl. Sjúkraliðanum.