Fyrstu sjúkraliðarnir með sérnám í hjúkrun aldraðra útskrifast. - 18. des. 2002

Laugardaginn 21. desember n.k. útskrifast þrettán sjúkraliðar frá Ármúlaskóla með eins árs sérnám í hjúkrun aldraðra. Ef að líkum lætur þá er um að ræða mikil tímamót í sögu stéttarinnar og ekki síður tímamót fyrir þær stofnanir sem veita öldruðum þjónustu. Sjúkraliðafélagið vill koma á framfæri árnaðaróskum til þeirra sem náð hafa þessum merka áfanga og ekki síður þeim sem stóðu að þessari nýbreitni þ.e. Ármúlaskóla, heilbrigðisráðuneyti, menntamálaráðuneyti og öðrum sem að málinu komu...

Viðbótarnám fyrir sjúkraliða veitir þeim þekkingu og færni sem miðast við að þeim sé falin aukin ábyrgð á ýmsum þáttum sem lúta að skipulagi og stjórnun í samræmi við eftirfarandi:

 

-   Þeir taka ábyrgð á tiltekinni stjórnun á sjúkradeildum og öðrum starfseiningum í ríkara  mæli en áður. Í því felst m.a. að skipuleggja vinnu samstarfsmanna á vakt í samvinnu við stjórnanda deildar, starfsseiningar eða sviðs.

-   Þeir forgangsraða tilteknum verkum og meta hvað er brýnast hverju sinni.

-   Þeir útdeila verkum til annarra sjúkraliða og ófaglærðs starfsfólks og fylgjast með  framkvæmd þeirra verka.

-   Þeir taka á móti nýjum sjúkraliðum og ófaglærðu fólki og kynna þeim störfin og starfsemi deildarinnar. Þeir eru tengiliðir við slíkt starfsfólk og leiðbeina því í ferli starfsaðlögunar.

-   Þeir sinna tilteknum sjúklingahópi á einingu/vakt og eru ábyrgir gagnvart yfir­manni, bæði hvað varðar eigin störf og einnig að þeir sem starfa undir þeirra stjórn sinni sínu af kostgæfni.

-   Á einingum þar sem einstaklingsbundin hjúkrun er viðhöfð, bera þeir ábyrgð á hjúkrun tiltekins einstaklings eða einstaklinga samkvæmt ákvörðun yfirmanns en geta líka haft eftirlit og skipulagt störf annarra fyrir þá einstaklinga.

 

Sjúkraliðar sem lokið hafa viðbótarnámi hafa þekkingu og færni til að gegna verkefnum og bera ábyrgð í samræmi við eftirfarandi:

 

-   Að vera tengiliðir við tiltekna skjólstæðinga og sinna samskiptum við þá og aðstandendur þeirra.

-   Að bera ábyrgð á ýmsum persónulegum eigum ásamt hjálpar- og stoðtækjum skjólstæðinga sinna og hafa umsjón með að hlutir til daglegra nota séu í samræmi við þarfir hverju sinni. 

-   Að þekkja persónuleg áhugamál og venjur skjólstæðinganna og beita sér fyrir því að tekið sé mið af þessu í daglegri umönnun.  Að fylgjast með því að frumþarfir hvers einstaklings séu í fyrirrúmi og gæta þannig margvíslegra hagsmuna skjól­stæðinga sinna á hverri legudeild eða annarri starfseiningu.

-   Að hafa samskipti við aðstandendur sjúklings um margvíslega þætti er snerta starfssvið sjúkraliða og hjúkrunar, og vera tengiliðir aðstandenda í málum skjól­stæðinganna. 

-   Að tryggja að aðstandendur fái þær upplýsingar sem þeir þurfa að hafa um deildina, s.s. útgefið efni og ýmis skipulagsmál.

-   Að taka að sér tiltekna skjólstæðinga og vaka sérstaklega yfir hag þeirra og réttindum á sjúkradeildinni.