Ungliðadeildin hefur verið róleg þetta starfsárið, svo ekki sé meira sagt, vegna mikilla anna stjórnarmanna og fjarveru formanns en formaður deildarinnar hefur verið búsettur í Vestmannaeyjum undanfarið ár.

Stjórnini hefur ekki verið unnt að koma saman aðalfundi, en settur hafði verið á fundur 11. mai 2011.  Ekkert liggur fyrir þeim aðalfundi annað en að stjórnarmenn þurfi að endurnýja umboð sitt til stjórnar. Formaður skal kosinn aftur á næsta starfsári.

Stjórnin hélt einn formlegan fund í upphafi starfsárs, en hefur haldið þó nokkuð af óformlegum símafundum og þannig haldið tengslum.  Hafa stjórnarmenn skilað á milli sín upplýsingum frá t.d. sjúkraliðanemum og komið þeim svo á framfæri við viðeigandi aðila.

Formaður deildarinnar tók þátt í kynningum ásamt formanni fræðslunefndar á starfsárinu.  Farið var í Fjölbrautaskólann í Breiðholti, Fjölbrautaskólan við Ármúla og Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.  Vil formaður deildarinnar þakka Birnu Ólafsdóttur fyrir það góða samstarf sem virðist skila mjög góðum árangri.

Stjórnarmenn eru sammála um það að efla þurfi starf deildarinnar að nýju á næsta starfsári en eins og segir hér í upphafi þá hafa áðstæður ekki gefið byr í seglin þetta starfsárið.

Formaður og stjórn Ungliðadeildar vil þakka stjórn Sjúkraliðafélags Íslands fyrir vel unnin störf og fyrir samstarfið á liðnu ári.

Birkir Högnason, formaður

Nú er árið 2009 gengið í garð, og að baki er eitt viðburðaríkasta ár sem við mörg okkar höfum upplifað.  Hrun efnahagslífsins með tilheyrandi usla og komandi niðursveiflu.  Án þess að vilja vera of svartsýnn er það nokkuð ljóst að árið 2009 verður erfitt ár og á margt eftir að koma í ljós og róðurinn á eftir að þyngjast. Hátt í 7% niðurskurður blasir við á Landspítalanum einum sem mun falla þungt á starfsfólk og sjúklinga.  Til þess að fá smá innsýn í tölurnar, má segja að um 7% niðurskurður jafnist á við að allt bráðasvið spítalans yrði lagt niður eins og það leggur sig. 

Nú mæðir á starfsfólki og í vændum er gífurlegt álag sem fylgir þeim hagræðingum sem stjórnendum spítalans er gert fara í.  Yfirvinnubann er í gildi og ljóst er að eðlileg starfsmannavelta verður að öllum líkindum stöðvuð og ekki ráðið inn í þær stöður sem kunna að losna.  Jafnframt má búast við að slíkum niðurskuði fylgi á endanum uppsagnir og ekkert vitað um hvaða starfstétt gæti orðið harðast úti.

Í árferði sem þessu er mikilvægt að hafa gott bakland.  Bakland sem styður við bakið á sínu fólki og berst með því.  Við sjúkraliðar eigum bakland sem dáðst er að, félagið okkar, Sjúkraliðafélag Íslands.  Nú reynir á okkur að standa saman, vinna okkur saman út úr þeim hremmingum sem ríða yfir þjóðina, ekki síst í þeim atvinnugeira sem við flest öll tilheyrum.  Með því að standa saman þéttum við og styrkjum baklandið.  Með öflugri samstöðu höfum við í höndunum afl sem ekkert fæst staðist.  Með þrautseigju og samvinnu getum við komist í gegnum þessa tíma og takmarkað þann skaða sem hlýst af því stjórnleysi sem ríkt hefur í landinu og fjármálalífi þess síðustu ár.

Við, heilbrigðisstafsmenn, þekkjum ekki góðærið.  Við erum vön kreppu og kunnum, betur en margir aðrir, að vinna við aðstæður þar sem alltaf er skorið við nögl.  Við fengum aldrei að upplifa þessa tíma sem menn hafa talað um sem gullaldarárin í þessu litla samfélagi okkar.  Við þekkjum orðið niðurskurður.  Það hefur alla tíð verið okkar vinnuárferði þó nú sé það þurrara og moldugra en áður.

Þeir sjúkraliðanemar sem nú eru við nám og eiga jafnvel stutt eftir í útskrift útskrifast að öllum líkindum inn í umhverfi sem enginn vill sjá í íslensku heilbrigðiskerfi.  Umhverfi sem undirritaður blessunarlega komst hjá að útskrifast inn í.  Umhverfi þar sem ekki er lengur sjálfsagt að fá vinnu hvar sem maður vill og hefur áhuga á. Umhverfi þar sem erfiðara er að fá vinnutíma sem hentar og möguleikarnir á aukavinnu fara minnkandi með degi hverjum.  Því er brýnt að baklandið taki vel utan um þessa nema og berjist að krafti fyrir tilvist þeirra inn í íslenska heilbrigðiskerfinu.

Við þurfum, saman, að vinna með breyttum áherslum.  Nú verða kjarasamningar brátt lausir og alls óvíst hvað verður.  Nú verður að halda rétt á spöðunum, eins og reyndar félagið hefur alltaf gert, en þú þarf að bæta í kraftinn, spíta í lófana og blása í seglin.   Ég vil því hvetja ykkur öll til þess að taka þátt í baráttunni, láta í ykkur heyra og standa þétt við bak hvers annars.  Sjúkraliðafélag Íslands er kjörinn vettvangur fyrir okkur að bera saman bækur okkar, krækja saman höndum og ganga fylktu liði í gegnum þessa erfiðleika.  Jafnvel þó ganga þurfi á móti straumnum og vaða svaðið upp í mitti.

Stofnun Ungliðadeildar Sjúkraliðafélags Íslands er ráðgerð 22. janúar næstkomandi og tel ég að það hafi aldrei átt meira rétt á sér en nú.  Þar skapast kjörið tækifæri til þess að styrkja grunnstoðir baklandsins.  Ég hvet alla unga sjúkraliða og sjúkraliðanema til þess að vera með frá upphafi.  Það er ykkar hagur og stéttarinnar í heild sinni.

Samstaða er afl sem ekkert fær staðist.  Tökum höndum saman, stöndum vörð um heilbrigðiskerfið og tilvist okkar innan þess.

 

Birkir Egilsson

 

Stofnfundur Ungliðadeildar Sjúkraliðafélags Íslands verður haldinn fimmtudaginn 22. janúar klukkan 19:30, í húsnæði BSRB við Grettisgötu 89. 


Sjúkaliðanemar - sjúkraliðar 35 ára og yngri - Sjúkraliðar á 1. og 2. starfsári, eru hvattir til þess að mæta.

 

 

Dagskrá:

1) Kynning fundarstjóra

2) Fundarsetning   formaður Sjúkraliðafélags Íslands, Kristín

    Á. Guðmundsdóttir setur fundinn.

3) Kynning Birkir Egilsson kynnir ungliðadeildina

4) Ávarp Heilbrigðisráðherra Hr. Guðlaugur Þór Þórðarson

    heilbrigðisráðherra flytur erindi

5) 'Hlé' Kaffi / veitingar í boði félagsins

6) Kosningar Formaður, Stjórn, önnur mál.

7) Fyrirspurnir samantekt

 

Best væri að skrá sig á fundinn með því að hringja eða senda SMS í síma 772 - 1870, vegna fundargagna og veitinga, þó er það ekki lykilatriði

 

Undirbúningsnefndin

 

 

 

Austurlands fagnar stofnun ungliðadeildar innan Sjúkraliðafélags Íslands. Við teljum að þetta muni án efa styrkja og efla okkar starfstétt.

 

 

Föstudaginn 6. febrúar 2009, sótti ég fyrirlestur í Háskóla Íslands um ungt fólk á vinnumarkaði.  Fyrirlesturinn var í raun kynning á vegum VR, en margt það sem þar kom fram átti almennt við um ungt fólk og stöðu þess á vinnumarkaðnum, óháð stéttarfélagi.  Fyrirlesarar voru Laufey Eydal og Elísabet Magnúsdóttir frá VR.

 

Fyrirlesturinn var byggður upp að mestu fyrir framhaldskólanema og var í raun framhald fyrirlestra sem áður voru sniðnir að grunnskólum.  Hann var skemmtilega upp byggður með leiknum atriðum.  Þar var það Jón Gnarr, leikari, sem lék stutta leikþætti sem sýndir voru á skjá milli þátta fyrirlestrarins.

 

Fyrsti leikna atriðið fjallaði um ungling sem vann við kjötborð í verslun.  Skyndilega er honum sagt upp vegna þess að hann gerist pönkari og breytir útliti sýnu.  Ástæðan er sögð sú að hann hræði kúnnana. Ungi maðurinn leitar til síns stéttarfélags sem hefst strax handa við að leiðrétta málið og komast að lausn í því með vinnuveitanda mannsins.  Lausnin var skemmtileg, haldin var sérstök pönk kynning í versluninni þar sem ungi maðurinn lék lykil hlutverk, þar sem skilningur þeirra sem versla í búðinni á pönki er aukinn.

 

Þetta er skemmtilega útfært dæmi um það hvernig stéttarfélag getur komið að málum fyrir einstakling sem brotið er á.  Það kom margsinnis fram á fyrirlestrinum að ungt fólk er oft illa upplýst um kaup og kjör, og jafnvel hrætt við að leita réttar síns.

 

Elísabetræddi almennt um stéttarfélög og hlutverk þeirra í samfélaginu.  Mikilvægi þeirra kemur einna best í ljós þegar samið er um lágmarkslaun því hvergi er kveðið á um þau í íslenskum lögum.  Því hefur í raun sá sem ekki tilheyrir stéttarfélagi ekkert í höndunum til þess að gera kröfu um laun sín.  Lög um orlof, veikindarétt og uppsagnarfrest, eru mun lakari en þau kjör sem bundin eru í kjarasamninga.

 

Annað leikna atriðið var einmitt um kosti stéttarfélags.  Þar var Jón Gnarr glæpamaður, sem ekki hafði aðgang að stéttarfélagi.  Þurfti hann því að sinna hagsmunum sínum algerlega sjálfur.  Hann hafði ekkert veikindafrí, og þurfti þess vegna stundum að brjótast inn fár veikur.  Hann gat ekki sótt neina styrki til þess að sækja símenntun í þróun glæpa.  Hann gat heldur ekki leigt sér sumarbústað á kostnaðarverði.  Síðan lenti hann í vinnuslysi þar sem hann varð fyrir því óhappi að hrasa í miðju innbroti.  Hann fékk engar bætur.

 

Þetta var virkilega fyndið og skemmtilega útfært. Boðskapurinn komst svo sannarlega til skila, þrátt fyrir gamansemi atriðsins.

 

Rætt var um að ástandið á vinnumarkaðnum í dag sé að koma verst út fyrir aldurshópinn 30 ára og yngri. Erfitt er orðið að halda vinnu með skóla og sumarið lítur ekki vel út.  Fólk er nú jafnvel látið minnka vinnuskylduna, en er samt að skila sömu verkum og verkefnum eins og áður, fyrir minni laun.

Þá var rætt um að nú sé tíminn þar sem reynt er að brjóta uppsagnarfrestinn, sérstaklega hjá ungu fólki sem verið er að láta afsala sér honum.

 

 

 

 

 

Þetta var með öllu skemmtilegur fyrirlestur, þrátt fyrir að vera að mörgu leyti sniðinn fyrir félagsmenn VR.  Hann var skemmtilega upp settur og komst vel til skila.  Við þurfum að vera sérstaklega á varðbergi á þessum erfiðu tímum og vera vel vakandi fyrir því að verið sé að halda kjarasamninga.  Það er nóg brotið á okkur í góðæri, hvað þá í kreppu.  Ef við höfum minnsta grun um að verið sé að brjóta samninga, hafið þá tafarlaust samband við trúnaðarmann eða leitið til félagsins.  Þetta er tími sem við þurfum að sjálfsögðu að sína ákveðinn sveigjanleika en við gefum ekki eftir það sem er búið að taka okkur mörg ár að berjast fyrir.  Berum því virðingu fyrir rétti okkar og stöndum fast á honum.  Styðjum við hvort annað og félagið okkar í þeirri baráttu.

 

Birkir Egilsson

Formaður Ungliðadeildar SLFÍ

 

Reykjavík 10. febrúar 2009

Ríkisstjórn Íslands

Kjörnir fulltrúar á Alþingi 

Þann 22. janúar síðastliðinn var haldinn stofnfundur Ungliðadeildar Sjúkraliðafélags Íslands.  Fundurinn var haldin í húsnæði BSBR við Grettisgötu 89 og var fundurinn í beinu fjarfundarsambandi við Akureyri.  Samþykkti fundurinn einróma ályktun sem ekki var unnt að senda út sökum snarpra umskipta á hinu pólitíska sviði og breyttum áherslum því fylgjandi.  Engu að síður þykir okkur mikilvægt að skilaboðum fundarins verði komið til skila.

Stjórn Ungliðadeildar SLFÍ hefur því ákveðið að senda frá sér eftir farandi ályktun, byggða að mestu á ályktun stofnfundarins:

Heilbrigðismál:

Stofnfundur Ungliðadeildar Sjúkraliðafélags Íslands, haldinn 22. janúar 2009, harmar þá stöðu sem upp er kominn í íslensku efnahagslífi og bitnar hart á velferðarkerfi landsins.  Fundurinn skorar á heilbrigðisyfirvöld að standa vörð um heilbrigðiskerfið og ganga ekki svo hart að því með niðurskurði að skjólstæðingum þess sé stefnt í voða.

Þá hvetur stjórn Ungliðadeildar ný heilbrigðisyfirvöld til þess að koma heilbrigðisstofnunum landsins til bjargar og tryggja að þjónusta við sjúklinga verði ekki skert og að komið verði í veg fyrir uppsagnir starfsfólks.  Þá minnir stjórn Ungliðadeildar nýjan heilbrigðisráðherra á þá baráttu sjúkraliða að fá leiðréttingu á kjörum sínum til samræmis við aðrar sambærilegar stéttir.

Menntamál:

Stofnfundur Ungliðadeildar Sjúkraliðafélags Íslands skorar á menntamálaráðherra að tryggja áframhaldandi þróun í menntun sjúkraliða.  Skorað er á heilbrigðis- og menntamálayfirvöld að þekking sjúkraliða og menntun sé að fullu viðurkennt og að störf þeirra hæfi menntun þeirra.

Stjórn Ungliðadeildar skorar á yfirvöld menntamála að tryggja að sjúkraliðanemar hafi greiðan aðgang að starfsnámi á heilbrigðisstofnunum á þeim 16 vikum sem námskráin gerir ráð fyrir. 

Kjaramál:

Stofnfundur Ungliðadeildar Sjúkraliðafélags Íslands krefst þess að laun stéttarinnar verði leiðrétt í samræmi við aðrar sambærilegar stéttir án tafar.  Fundurinn styður við hugmyndir sem fram hafa komið um styttingu vinnuviku vaktavinnufólks og telur það nauðsynlega aðgerð til að bæta vinnuumhverfi stéttarinnar.  Einnig tekur fundurinn undir þá ályktun 17. fulltrúaþings Sjúkraliðafélags Íslands um að þjónustutími leikskóla verði endurskoðaður m.t.t. vaktavinnufólks.

Fyrir hönd Ungliðadeildar Sjúkraliðafélags Íslands

____________________________

Birkir Egilsson

Formaður U-SLFÍ

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

GSM: 772-1870

 

Reykjavík 29.01.08

 

Stjórn Framvegis,

miðstöðvar um símenntun í Reykjavík.

Stjórn Ungliðadeildar Sjúkraliðafélags Íslands lýsir undrun sinni á gífurlegri hækkun á gjaldskrá Framvegis 2009.  Okkur reiknast til að gjaldskrá Framvegis hafi hækkað um 73% á innan við tveimur árum þar sem hver kennslustund hefur að meðaltali farið úr 1.150kr upp í 2.000kr.  Þar af leiðandi kostar eitt 20 stunda námskeið nú 40.000kr en kostaði 23.000kr á vorönn 2007.

            Stjórn Ungliðadeildar SLFÍ gerir sér fulla grein fyrir því að það efnahagsástand sem nú ríkir hefur valdið hækkunum á ýmsum sviðum í íslensku þjóðfélagi.  Við teljum hinsvegar að það eitt geti ekki útskýrt þessa gríðarlegu hækkun.  Lélegur samanburður er t.d. sá að  skólagjöld framhaldskóla hafa lítið sem ekkert hækkað á þessu sama tímabili.  Betri samanburður er hinsvegar sá að bókakostnaður við almennt nám hefur sára lítið aukis síðustu ár.  Það er tvennur kostnaður, kennslulaun og kostnaður við námsgögn, sem við lítum á þessu til samanburðar.  Við vitum að almenn laun kennara hafa ekki hækkað stórlega síðustu tvö ár né laun á almennum vinnumarkaði.  Því getur aukinn launakostnaður vart skýrt þessa hækkun.

            Fall íslensku krónunar hefur ekki síður en verðbólgan valdið mestu hækkunum á Íslandi þar sem það á við.  Við sjáum hinsvegar ekki að rekstur símenntunarstöðvar í Reykjavík sé mikið bundin við ris eða fall íslensku krónunar.

            Stjórn Ungliðadeildar SLFÍ gerir sér grein fyrir því að hækkun afborganna á húsnæði hljóti að vera valdur af einhverjum hluta þessarar hækkunar og einhver er aukning kostnaðar í daglegum rekstri.  Við teljum hinsvegar að 73% hækkun geti á engan hátt skýrst af þessu.

 

Hér kemur dæmi eins og málin standa fyrir okkar félagsmenn þar sem kostnaður og styrkir eru bornir saman:

 

Í byrjun árs 2007 fengust þrjú 20st námskeið hjá Framvegis fyrir 69.000kr.  Styrkur starfsmenntunarsjóðs var þá 60.000kr svo einstaklingurinn þurfi að leggja út 9.000kr aukalega úr eigin vasa.

 

Í byrjun árs 2009 fengust þrjú 20st námskeið hjá Framvegis fyrir 120.000kr.  Styrkur stafsmenntunarsjóðs var þá 60.000kr og styrkur starfsþróunarsjóðs 40.000kr svo einstaklingurinn þurfti að leggja út 20.000kr aukalega úr egin vasa eða 122% meira en hann þurfti að leggja út tveim árum áður, þrátt fyrir 67% aukna styrki.

 

Kjósi einstaklingur í dag að leggja fram jafn háa upphæð, úr eigin vasa, eins og árið 2007 fengi hann í dag 5,5 kennslustundum minna en árið 2007 sem eru um 6% færri stundir og kemur það heim og saman við hlutfall milli hækkun gjalda vs. hækkun styrkja.

 

Það er að sjálfsögðu vafasamt að sjá hækkun styrkja og hækkun gjalda haldast svo fast í hendur en hækkun Framvegis nemur, eins og áður sagði. 73% en hækkun styrkja um 66%. Stjórn Ungliðadeildar Sjúkraliðafélags Íslands óskar því eftir að stjórn Framvegis gefi skýringar á þessari miklu hækkun og leggi fram gögn þess til staðfestingar.  Hvort sem það er gert bréflega eða með fundarhaldi.  Það er skýr krafa okkar að málið sé skoðað til enda og að enginn skjóti sér undan ábyrgri umræðu um málið

 

 

Fyrir hönd stjórnar Ungliðadeildar Sjúkraliðafélags Íslands


 

 

 

____________________________

Birkir Egilsson

Formaður

 

 

 

 

 

 

_____________________________

Helen Long

 

 

 

 


 

 

 

 

 

____________________________

Lilja Björnsdóttir

Stjórn Ungliðadeildar sendi þann 29.01.09 bréf til stjórnar Framvegis þar sem óskað var eftir skýringum á mikilli hækkun gjaldskrár á síðast liðnum tveim árum.  Sýndu útreikningar að gjaldskráin hafi hækkað um sem nemur 73%.

 

Forsvarsmenn Framvegis boðuðu stjórn Ungliðadeildar á sinn fund þann 19.02.09 og mætti undirritaður á fundinn fyrir þeirra hönd.  Á fundinum kom fram að á síðustu árum hefur húsaleiga Framvegis hækkað um 39% en hún er bundin vísitölu.  Þá hafa laun kennara, sem greidd eru sem verktakalaun, hækkað um 24% á sama tímabili.  Því er auðséð að þessir tveir kostnaðarliðir í rekstri símenntunarstöðvarinnar vega þungt í þessari hækkun.  Einnig var aukið við starfsmenn Framvegis um eitt og hálft stöðugildi. Á fundinum kom fram að Framvegis greiðir sínum kennurum aðeins hærri laun en gengur og gerist á markaðnum.  Það sé gert til þess að viðhalda sem hæstu faglegu stigi.

 

Samningaviðræður eru í gangi um framtíð leigusamnings og vilja þau hjá Framvegis frá leiguna lækkaða.  Verði sóknin á námskeið Framvegis áfram góð og ef að leigan lækkar má gera ráð fyrir því að það skili sér fyrst og fremst í því að gjöldin lækki aftur fyrr en síðar.  Allt verði gert til þess að takmarka alla hækkun og stuðla frekar að lækkun.

 

Sjúkraliðar eru lang stærsti hópurinn sem sækir menntun til Framvegis enda þar um einu faglegu símenntunarstöð þeirra að ræða.  Því gerir stjórn U-SLFÍ þá kröfu til Framvegis, fyrir hönd allra sjúkraliða, að rekstur Framvegis sé sífellt í skoðun og ávalt sé leitað leiða til þess að halda kostnaði í lágmkarki. Verði kostnaður við námskeið svo há að sjúkraliðar sjái sér ekki lengur fært að sækja þau, þá sé rekstragrundvöllurinn orðinn að engu. Kom undirritaður þeim skilaboðum áleiðis til forsvarsmanna Framvegis.

 

Undirritaður er að mestu sáttur við þau svör sem fengust hjá Framvegis vegna málsins.  Stjórn Ungliðadeildar sér ekki ástæðu til þess að aðhafast frekar í málinu að svo stöddu.  Við teljum að skýringarnar séu eðlilegar og vonumst til þess að hægt verði á ná fram lækkun strax á næstu önn.

 

Stjórn Ungliðadeildar fagnar því að námskeið Framvegis verði nú í auknu máli flutt út á landsbyggðina til þeirra hópa sjúkraliða sem hafa áhuga á að sinna námi sínu heimafyrir.  Fagnar stjórn deildarinnar samvinnu Sjúkraliðafélags Íslands og Framvegis um það mál.  Þetta er gott framtak sem stuðlar að jöfnuði meðal félagsmanna.

 

 

Fyrir hönd stjórnar Ungliðadeildar

 

 

_______________________

Birkir Egilsson

Formaður U-SLFÍ

 

Stjórn Ungliðadeildar SLFÍ fagnar þeirri ákvörðun stjórnar starfsþróunarsjóðs að hækka framlag til sí- og endurmenntunar sjúkraliða.  Með tilliti til þjóðfélagsástandsins og hækkun námskeiðsgjalda er þetta stórt skref til aðstoðar félagsmanna SLFÍ.

 

Ungliðadeild félagsins hefur bent á að vegna mikillar hækkunar á námskeiðsgjöldum hafi sjúkraliðar verið farnir að fá minna fyrir styrk sinn en áður, þrátt fyrir viðbótarframlag sjóðsins sem kom til síðla árs 2007 og bent á að styrki þyrfti að hækka.

 

Það er því mikið ánægjuefni að nú þegar reikningar sjóða liggja fyrir hafa stjórnin tekið þessa ákvörðun og er það von okkar að sjúkraliðar verði áfram duglegir að bæta við menntun sína.

 

F.h. stjórnar U-SLFÍ

 

Birkir Högnason

Formaður Ungliðadeildar

 

Eins og greint var frá í síðasta tölublaði Sjúkraliðans hef ég, formaður Ungliðadeildar, sagt bréflega af mér störfum.  Samkvæmt bréfi mínu til stjórnar huggðist ég hætta þann 1. maí sl. af ástæðum sem ekki verða tíundaðar hér. Þann 30. apríl sendi ég þó formanni félagsins tölvupóst þar sem að ég greindi frá því að ég myndi sitja sem formaður Ungliðadeildar fram yfir fulltrúaþing eða þar til stjórn deildarinnar kæmi saman.  Sá stjórnarfundur hefur ekki verið unnt að halda og sit ég því enn sem formaður deildarinnar.  Stjórnarfundur hefur verið boðaður í næstu viku og verður þar tekin ákvörðun um hvort uppsögn mín stendur eður ei.

Birkir Högnason

Formaður U-SLFÍ

 

Kæru Sjúkraliðar

 

Nú er hafið nýtt starfsár Sjúkraliðafélags Íslands eftir vonandi gott sumarfrí hjá okkur öllum.  Það er margt sem brennur á þessa daganna og umræður um niðurskurð, hagræðingar, sparnað og rekstrarerfiðleika hafa vart farið fram hjá neinum.  Sú staðreynd blasir við að töluvert er af sjúkraliðum á atvinnuleysisskrá og þó nokkuð margir, ef ekki allir, óttast um stöðu sína og störf.

 

Því langar mig aftur að minnast á baklandið sem ég minntist á í pistli um síðastu áramót.  Baklandið sem við höfum í Sjúkraliðafélagi Íslands, starfsystur okkar og bræður.  Á þessum tímum er mjög mikilvægt að við styrkjum þetta bakland, stöndum saman og nýtum okkur þau tækifæri sem kunna að bjóðast í árferði sem þessu.  Það er mikinn styrk hægt að finna í góðu samstarfi og mikla sigra hægt að vinna.  Ég sé fyrir mér að við, sjúkraliðar, sem og öll þjóðin getum komið út úr þessu öllu sterkari en áður.

 

Ég hvet ykkur öll til þess að taka virkan þátt í starfi félagsins í vetur.  Vera dugleg að mæta á fundi og aðra viðburði í sinni deild og ekki hika við að leggja sín málefni og sjónarmið fram.  Ég vil eins hvetja stjórnir og skemmtinefndir svæðisdeilda til þess að virkja skemmtanagleðina í sínu fólki, því ekki veitir af að gleðjast saman.

 

Gott bakland þarf góða stjórn og sömuleiðis þarf góð stjórn gott bakland.  Því hvet ég til þess að við sýnum öll stjórn okkar svæðisdeilda og félagsstjórn stuðning í orðum, huga og verkum.  Nú er tími til að leggja til hliðar smáatriðin og standa saman um stóru málin. Á sama hátt hvet ég stjórnarmenn félagsins til þess að hlusta sérstaklega vel eftir röddum félagsmanna. 

 

Ég get rétt ímyndað mér að á tímum sem þessum mæði mikið á starfsfólki skrifstofu SLFÍ.  Ég hvet því til þess að við sýnum þeim alla þá virðingu og vinahug sem þau eiga réttilega skilið fyrir sín vel unnu störf í þágu okkar.

 

Berjumst saman öll sem eitt, tökum veturinn með trompi og munum að jákvæðni skilar bestu framförunum.

 

Kveðja

 

Birkir Högnason

Formaður U-SLFÍ